TS Shippingline

Vegna erindis frá Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu sem tekið var fyrir í byggðaráði Dalvíkurbyggðar fimmtudaginn 9. júlí, þar sem fram kom að TS Shippingline hefur sótt um ívilnunarsamning við íslenska ríkið, skal eftirfarandi tekið fram.

Viðræður hafa verið í gangi við forsvarsmenn TS Shippingline í Svíþjóð vegna hugsanlegrar staðsetningar fyrirtækisins á lóð norðan við Hauganes. Starfsemi fyrirtækisins felur í sér niðurbrot skipa til endurvinnslu en fyrirtækið leggur áhersla á að um græna starfsemi sé að ræða. Samningaviðræður sveitarfélagsins og forsvarsmanna TS Shippingline hafa verið í gangi og verða teknar aftur upp í haust að loknum sumarleyfum. Stefnt er að íbúafundi um verkefnið í haust og umfjöllun í sveitarstjórn.

Á íbúafundinum mun fyrirtækið kynna enn frekar þá starfsemi sem ráðgerð er á umræddu svæði við Hauganes. Þar fá íbúar einnig tækifæri til að spyrja fulltrúar fyrirtækisins og sveitarfélagsins nánar um verkefnið. Vegna umfangs þessa máls er sveitarfélagið opið fyrir því að skjóta málinu í dóm íbúa sveitarfélagsins með íbúakosningu sem færi fram eftir mjög ítarlega kynningu. Ekkert hefur þó verið fjallað formlega um þessa hugmynd í sveitarstjórn og verður ekki gert fyrr en á haustdögum.