Traustur rekstur og miklar framkvæmdir

Á fundi bæjarstjórnar Dalvíkurbyggðar í gær var fyrri umræða um fjárhagsáætlun Dalvíkurbyggðar fyrir árið 2008. Einkenni áætlunarinnar eru traustur rekstur og miklar framkvæmdir án nýrrar lántöku.   Rekstrarafgangur aðalsjóðs er áætlaður tæplega 158 milljónir króna og samanlagður  rekstrarafgangur A og B hluta um 146 milljónir króna. Þetta er afar jákvæð og góð niðurstaða sem byggir einkum á því að:
  • Tekist hefur að halda vel utanum rekstur sveitarfélagsins
  • Aukin umsvif í sveitarfélaginu skapa meiri tekjur
  • Á undanförnum árum hafa lán verið greidd niður og ekki hafa verið tekin ný langtímalán, þó framkvæmdir hafi verið miklar.

Veltufé frá rekstri eru 322 milljónir kr. eða um 25% af heildartekjum. Það sýnir hvað reksturinn skilur eftir til fjárfestinga og/eða til greiðslu afborgana á langtímaskuldum og sýnir jafnframt rekstrarhæfi sveitarfélagsins.

Heildartekjur sveitarfélagsins eru áætlaðar 1.262.787 m. og að reksturinn, án fjármagnsliða, taki ríflega milljarð. Helstu tekjuliðir eru útsvarstekjur sem áætlað er að verði um 468 milljónir. Þá hefur verið áætlað fyrir lækkun útsvarstekna vegna þorskniðurskurðar sem talin er verða 21 milljón sbr. skýrslu Hagfræðistofnunar. Þá er gert ráð fyrir að heildarframlög Jöfnunarsjóðs verði um 419  milljónir króna og að fasteignaskattar á árinu verði um 124 milljónir.

Þessi áætlun gerir ráð fyrir því að reksturinn sé að taka ríflega 88% af tekjum og þá er allt undir; laun, annar rekstrarkostnaður, afskriftir og fjármagnsliðir.  

Ekki er gert ráð fyrir lántöku á árinu 2008 en afborganir langtímalána eru um 75 m. kr.

Áætlað er að framkvæma fyrir tæplega 300 milljónir á árinu 2008. Þar eru helstar framkvæmdir við stofnanir uppá ríflega 40 milljónir, þ.e. viðbygging og endurnýjun á leikskólanum Fagrahvammi, lyfta og önnur aðgengismál í Ráðhúsi auk framkvæmda á efstu hæð þess, 150 milljónir í fyrsta áfanga nýs íþróttahúss, 43 milljónir fara til fráveituframkvæmda og er þá lokið fráveituframkvæmdum á Dalvík og áætlað er að verja um 32 milljónum til gatnagerðarframkvæmda. Þá er áætlað að verja nokkru fé til viðhalds og uppbyggingar leiksvæða. Auk þessa eru áætlaðar framkvæmdir við hafnirnar.