Tónleikar í Dalvíkurkirkju

Sparisjóður Svarfdæla og Friðrik Ómar hafa tekið höndum saman og bjóða öllum á tónleika sem haldnir verða í Dalvíkurkirkju fimmtudagskvöldið 14. desember nk. kl. 20:30.

Víst er að aldrei áður hefur slíkur viðburður verið haldinn í Dalvíkurkirkju þar sem kirkjunni verður breytt í tónleikasal með stórum ljósa og hljóðbúnaði. Á tónleikunum mun Friðrik Ómar koma fram ásamt hljómsveit og óvæntum gestum. Friðrik Ómar hefur á þessu ári skipað sér í framlínu íslenskra dægurlagasöngvara með frábærum árangri á tónlistarsviðinu. Plötur hans og Guðrúnar Gunnarsdóttur hafa selst í um 15.000 eintökum og er nýjasta plata hans ANNAN DAG að gera góða hluti. Það er skemmst frá því að segja að pilturinn hafi ungur að árum vitað hvað hann ætlaði sér og stefndi kaldur að þeim stað sem hann er í dag.

Friðrik Ómar söng í fyrsta sinn opinberlega á söngskemmtun í Víkurröst á Dalvík árið 1990. Friðrik hefur haldið því vel á lofti að hann sé Dalvíkingur og að þar hafi hann hafið tónlistarferil sinn sem er þó aðeins rétt að byrja og er því honum mikið kappsmál að koma heim og halda tónleika. Sparisjóður Svarfdæla hefur styrkt Friðrik allt frá unga aldri á tónlistarsviðinu með ýmsum hætti og kemur veglega að framkvæmd þessa tónleika. Slíkt samstarf er ómetanlegt og báðir aðilar ánægðir með samstarfið í gegnum tíðina.

Efnisskráin á tónleikunum eru lög af sólóplötu Friðriks ANNAN DAG sem kom í verslanir í byrjun nóvember og nokkur vel valinn jólalög. Auk þess verða ýmsar óvæntar uppákomur. Það er Hljóðkerfa og ljósaleiga Akureyrar sem sér um tæknimálin.