Þorvaldsdalskokkið í 20 sinn

Þorvaldsdalskokkið í 20 sinn

Á morgun, laugardaginn 29. júní, fer fram 20. Þorvaldsdalsskokkið. Skokkið er um 25 km óbyggðarhlaup þar sem keppendur hlaupa í gegnum Þorvaldsdalinn.


Hlaupið hefst kl. 12:00 við Fornhaga í Hörgársveit. Afhending gagna verður í Árskógarskóla frá kl. 10:15 en kl. 11:00 leggur rúta af stað frá Árskógsskóla og flytur keppendur að rásmarki við Fornhaga. Það gefur keppendum færi á að geyma bíla sína við mark hlaupsins. Einnig geta keppendur mætt beint í Fornhaga og geta þá fengið keppnisnúmer sitt þar.


Að hlaupi loknu er tilvalið fyrir keppendur að skola af sér rykið í Jónasarlaug á Þelamörk en þar fæst ókeypis aðgangur laugardaginn 29. júní með framvísun þátttökupenings.


Veturinn að þessu sinni var frekar snjóþungur og voraði seint á norðurlandi og mega keppendur því búast við óvenju miklum snjó á dalnum auk þess sem allar mýrar eru væntanlega mjög blautar. Biðjum við keppendur að vera viðbúnir þessum aðstæðum og búa sig vel.


Veður hefur leikið við Norðlendinga undanfarið og skv. veðurspá veðurstofunnar lítur út fyrir sunnanátt á hlaupdag en þar sem sú spá er nokkra daga fram í tímann hvetjum við þátttakendur til að fylgjast með veðurspá og sömuleiðis huga að hlaupaveðri að morgni hlaupdags.

Nánar um hlaupið á http://thorvaldsdalur.umse.is/