Svarfdælskur mars - Héraðshátíð í Dalvíkurbyggð

Þegar marsmánuður er genginn í garð fara íbúar Dalvíkurbyggðar að stokka brússpilin, bursta dansskóna og gera sig á annan hátt andlega reiðubúna fyrir Svarfdælska Marsinn. Svarfdælingar eru um margt sérstakir og sérlundaðir og héraðshátíðin Svarfdælskur Mars hefur alla svarfdælska sérvisku mjög í hávegum og leggur rækt við staðbundna menningu í Dalvíkurbyggð að fornu og nýju.

Hátíðin stendur yfir helgina 13.-15. mars og hefst að vanda á föstudagskveldi á Heimsmeistarakeppni í brús í Félagsheimilinu Rimum. Þar keppa gamalreyndar brúskempur í bland við unga og upprennandi spilamenn í þessu makalausa spili þar sem öllum hefðbundnum spilagildum er kastað fyrir róða um hinn eftirsótta gullkamb sem er farandgripur. Aðeins einu sinni hefur gripurinn ratað úr höndum heimamanna þegar Höfðhverfingar mættu yfir fjörðinn með harðsnúna sveit spilafólks og höfðu gullkambinn heim með sér. Heimsmeistarmótið er eins og nafnið ber með sér stærsti opinberi viðburður brússpilafólks hvaðanæva að af landinu og úr heiminum.

Á laugardaginum er ýmislegt haft til hátíðarbrigða. Upplagt er að byrja daginn á Sögugöngu um Dalvík með leiðsögn Sveinbjörns Steingrímssonar, en gangan byrjar kl. 11:00 og er gengið frá byggðasafninu Hvoli. Opið verður í byggðasafninu Hvoli og boðið upp á kaffi þar en klukkan tvö hefst dagskrá í Dalvíkurkirkju sem nefnist Sögur, ljóð og söngur úr Dalvíkurbyggð. Þar munu Anna Kristín Arngrímsdóttir leikkona, Gunnar Stefánsson útvarpsmaður , Þórarinn Eldjárn og fleiri upplesarar lesa ljóð og sögur sem tengjast svæðinu og þrír kórar úr byggðinni hefja upp raust sína. Leiklestrarhópurinn Bjargirnar flytur leikritið Skugga-Björgu í Ungó kl. 17 en það er Skugga Sveinn Matthíasar Jochumssonar með konur í öllum hlutverkum. Um kvöldið er svo enn ein skrautfjöður hátíðarinnar en þá er Marsinn stiginn að Rimum. Marsinn hefur verið dansaður af þrótti í Svarfaðardal um aldir og þar eru hafðir uppi ýmsir dansleikir s.s. hnúturinn og klúturinn, spegillinn, nafnaköll, dömukeðjur, mylla ofl.

Dagskrá helgarinnar lýkur svo á sunnudeginum með Kirkjuhring um Svarfaðardal með viðkomu í hinum þremur friðuðu kirkjum dalsins þar sem Árni Daníel Júlíusson sagnfræðingur og Íris Ólöf Sigurjónsdóttir safnstjóri fræða þátttakendur um eitt og annað varðandi sögu og muni kirknanna.

Nánari upplýsingar veitir Hjörleifur Hjartarson í síma 861 8884 eða á netfanginu hjhj@rimar.is