Sundskáli Svarfdæla 80 ára

Sundskáli Svarfdæla 80 ára

Sundskáli Svarfdæla varð 80 ára þann 25 apríl sl. en skálinn var vígður á sumardaginn fyrsta þann 25. apríl árið 1929. Í tilefni dagsins  komu saman nokkrir velunnarar og næstu nágrannar skálans og héldi morgunverðafund á laugarbakkanum. Var þar samþykkt að vinna að stofnun hollvinafélags Sundskála Svarfdæla og skipaður undirbúningshópur að því. Hópinn skipa þau Sólveig Lilja Sigurðardóttir, Þóra Rósa Geirsdóttir og Hjörleifur Hjartarson.  Hollvinafélagið mun hafa það á stefnuskrá sinni  að hefja þessa öldnu og stórmerku byggingu og sögu hennar  til vegs og virðingar og vinna að eflingu staðarins með ýmsum hætti.
Lengi hefur verið rætt um að koma upp heitum potti í tengslum við laugina en fleiri verkefni koma til greina s.s. söfnun mynda  sem tengjast sögu skálans , gerð heimasíðu, uppsetning sýningar  ofl. Nú er uppi nokkur hreyfing í þá átt að varðveita hinar gömlu sundlaugar sem á undanförnum áratugum hafa orðið hornreka fyrir nýjum og glæsilegri sundstöðum. Mun Hollvinafélagið væntanlega tengja sig þessari hreyfingu og vinna í samvinnu við aðra að varðveislu og markaðssetningu  gömlu lauganna.
Afmælis sundskála Svarfdæla verður væntanlega minnst með einhverjum hætti á vegum  bæjarfélagsins  að sögn Bjarna Gunnarssonar æskulýðsfulltrúa en þar sem það bar upp á kosningadaginn og  Andrésara andar leikana var óhægt um vik til að halda upp á daginn.

 
Nokkrir velunnarar Sundskála Svarfdæla halda upp á 80 ára afmæli hans