Stytting vinnuvikunnar - staða mála

Stytting vinnuvikunnar - staða mála

Stytting vinnuvikunnar er títt rædd þessi misserin víða og á það við um vinnustaðinn Dalvíkurbyggð líka. Um áramótin voru staðfest samkomulög frá stofnunum/starfsfólki um útfærslu á styttingu vinnuvikunnar m.v. 13 mínútna kjarasamningsbundna styttingu dagsins. Útfærslurnar á úttekt voru jafnmargar og misjafnar og stofnanirnar eru. Nú fer senn að líða að lokum gildistíma samkomulaganna, þ.e. út apríl.

Fyrir nokkrum vikum sendi sveitarstjóri áminningu þess efnis til stjórnenda að nú væri tímabært að hefja á ný vinnu, annað hvort við ný samkomulög eða áframhald á núgildandi útfærslum. Undirrituð hefur heyrt í nokkrum stjórnendum og eru flestir komnir á fullt í þessari vinnu og er greinilegt að ýmsar útfærslur verða reyndar næst. Það er greinilegt að ekki hentar sama forskriftin öllum stofnunum og verður forvitnilegt að heyra og sjá hvað tekur við.

Ég hvet ykkur, kæra samstarfsfólk (sem á rétt á styttingu vinnuvikunnar) að kynna ykkur málin vel á upplýsingasíðu um betri vinnutíma (www.betrivinnutimi.is), en þar má finna fullt af fróðleik, spurningum og svörum við þeim og góðum kynningarmyndböndum.

Gangi ykkur vel,

Kveðja,
Rúna Kristín – launafulltrúi