Styrkur til þróunarstarfs í grunnskólum Dalvíkurbyggðar

Nú í apríl var stykjum úthlutað úr Sprotasjóði sem styrkir árlega þróunarverkefni á öllum skólastigum. Þau gleðilegu tíðindi hafa borist að Grunnskólarnir í Dalvíkurbyggð hafi fengið úthlutað 1.600.000 krónum í þróunarstarf sem ganga mun undir nafninu Byrgjum brunninn-árangursríkt nám í upphafi grunnskóla. Markmið þess er að grípa sem fyrst inn í og styðja sérstaklega við nám þeirra nemenda sem við upphaf grunnskólagöngu hafa litla færni í undirstöðuþáttum lestrar eða lítinn talnaskilning. Stefnan er að þróa árangursríka kennsluhætti í sérkennslu á fyrstu árum grunnskólans sem bæði verði til hagsbóta fyrir nemendur og síðar meir sveitarsjóð.

Verkefnisstjórar sérkennslu í Dalvíkurskóla, þær Dóróþea Reimarsdóttir og Gunnhildur Birnisdóttir, munu skipuleggja og halda utan um verkefnið en fleiri sérfræðingar munu koma að þessu verkefni ásamt kennurum á yngsta stigi skólanna. Einnig er stefnt að því að foreldrar þeirra barna sem þurfa sérstakt inngrip verða virkir þátttakendur í vinnunni. Þróunarstarfið verður byggt ofan á þau skref sem stigin hafa verið í þessa átt við Dalvíkurskóla á síðustu tveimur árum.