Sorphirða að vetri

Nú hefur snjóað töluvert og þess vegna eru íbúar Dalvíkurbyggðar minntir á mikilvægi þess að moka vel frá ruslatunnum svo auðveldara sé að draga þær fram og tæma. Æskilegt er að tunnunum sé komið fyrir sem næst lóðamörkum við götu til þess að auðvelda losun.
Í síðustu viku tafðist sorphirða í dreifbýli vegna ófærðar en nú á að vera búið að losa allar tunnur.
Að gefnu tilefni eru íbúar einnig minntir á það að ekki má setja glerílát í endurvinnslutunnuna vegna slysahættu við flokkun. Glerílát ætti að setja með almennu sorpi í svörtu tunnuna eða koma niður á Gámasvæði við Sandskeið.