Sjómennska frá landnámi til vorra daga - Tónleikar Karlakórs Dalvíkur

Karlakór Dalvíkur heldur tónleika á Akranesi og Reykjavík á föstudag og laugardag sem tileinkaðir eru sjó og sjómennsku frá landnámi til vorra daga. Þetta er gert með mjög myndrænum hætti þar sem að sagðar eru sögur á milli sönglaga sem eiga sér samsvörum í þeim texta sem fluttur er og jafnvel birtast þeir tónleikagestum. Einnig verður á dagskránni nýtt lag eftir söngstjóra kórsins, Guðmund Óla Gunnarsson við ljóð Jóhannesar úr Kötlum, Blöndukúturinn. Þetta ljóð, eins og allir, vita fjallar um þá bræður á Bakka sem frægir eru fyrir ýmis uppátæki sín sem ratað hafa í þjóðsögurnar. Kórnum til liðsinnis í þessum söng með leikrænni tjáningu eru þeir bræður frá Bakka; Gísli, Eiríkur og Helgi, ásamt föður sínum. En eins og alþjóð veit þá er bærinn Bakki í Svarfaðardal.

Þessi söngdagskrá sem boðið er upp á skiptist í meginatriðum í tvo hluta: fyrrihlutinn nær frá landnámi að þeim tíma er menn stunduðu hér sjóróðra á opnum bátum og þilskipum þar sem margir ungir og efnilegir sjómenn fórust við störf sín. Seinnihlutinn fjallar um þann léttleika og lífsgleði sem vinna í fiskvinnu skapaði þar sem saman var komið mikið af ungu fólki til þess að afla sér fjár og einnig að skemmta sér með framandi mönnum.

Karlakórinn flutti þessa dagskrá á nokkrum tónleikum á Dalvík og í nágrenni á síðasta ári við mjög góða aðsókn og undirtekir. Meðal annars voru tvennir tónleikar í tengslum við Fiskidaginn mikla í fyrra.

Tónleikarnir verða í safnaðrheimilinu Vinaminni Akranesi föstudag kl 20.30 og í Fella og Hólakirkju á laugardag kl 16.00