Samþykkt um kattahald í Dalvíkurbyggð

Á heimasíðu Dalvíkurbyggðar er nú að finna samþykkt um kattahald í Dalvíkurbyggð. Samkvæmt henni er kattahald heimilað í Dalvíkurbyggð að fengnu leyfi, með þeim takmörkunum og að uppfylltum þeim skilyrðum sem fram koma í samþykktinni. Ekki er heimilt að hafa fleiri en tvo ketti, eldri en 4 mánaða, á sama heimili. Gelda skal alla fressketti þegar þeir hafa náð 6 mánaða aldri, nema þeir séu notaðir til ræktunar.


Umsókn um leyfi til kattahalds skal senda umhverfis- og tæknisviði Dalvíkurbyggðar innan mánaðar frá því að köttur er tekinn inn á heimili, enda hafi samþykki skv. 4. gr. verið aflað ef við á. Heimilt er þó að halda kettlinga, sem vistaðir eru á skráningarstað móður, án skráningar þar til þeir verða 4 mánaða, enda hafi samþykkis skv. 4. gr. verið aflað ef við á. Útgáfa leyfis er háð staðgreiðslu skráningargjalds. Við útgáfu leyfis fær leyfishafi afhenta merkta plötu, sbr. 8. gr. og eintak af samþykkt um kattahald í Dalvíkurbyggð. Listi yfir skráða ketti í Dalvíkubyggð mun verða aðgengilegur á heimasíðu Dalvíkurbyggðar.


Leyfi til kattahalds má veita að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum:
• Umsækjandi skal vera lögráða. Leyfið er persónubundið, óframseljanlegt og bundið við heimili umsækjanda enda er það ófrávíkjanlegt skilyrði að köttur sé skráður og haldinn þar.
• Að fyrir liggi samþykki sameigenda fjöleignarhúss þar sem það á við, sbr. 4. gr.
• Að kötturinn sé örmerktur, sbr. 8. gr. 

Hafi umsækjandi ítrekað eða gróflega gerst brotlegur við samþykkt þessa eða fyrri samþykktir sama efnis eða lög um dýravernd, er heimilt að hafna umsókn hans.

Við skráningu kattar skal greiða staðfestingargjald sem fram kemur í gjaldskrá fyrir kattahald í Dalvíkurbyggð.


Nánari upplýsingar má finna í Samþykkt um Kattahald