Samstarf Vinnumálastofnunar og HA

Vinnumálastofnun Norðurlands eystra og Háskólinn á Akureyri hafa lýst yfir vilja um samstarf um ráðningu allt að 5-10 háskólamenntaðra einstaklinga, sem eru án atvinnu og hafa skráð sig á atvinnuleysisskrá. Um yrði að ræða tímabundið hlutastarf við rannsóknavinnu á vegum háskólans á grundvelli laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Ráðið verður í störf sem skapast innan Háskólans á Akureyri í tengslum við rannsóknaverkefni sem háskólakennarar hafa umsjón með. Tilgangur samstarfsins er að veita háskólamenntuðu fólki tímabundna atvinnu vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem skapast hafa í efnahagslífi þjóðarinnar og þeim afleiðingum sem þær hafa haft á vinnumarkaðinn og leitt hafa til aukins atvinnuleysis og fækkandi atvinnutækifæra.

Frétt fengin af www.dagur.net