Húsaleigubætur - Nýtt fyrirkomulag á opinberum húsnæðisstuðningi tekur gildi 1. janúar 2017

Húsaleigubætur - Nýtt fyrirkomulag á opinberum húsnæðisstuðningi tekur gildi 1. janúar 2017

Þann 1. janúar n.k. munu húsnæðisbætur (greiddar af ríkinu) og sérstakur (viðbótar) húsnæðisstuðningur sveitarfélaga leysa af hólmi húsaleigubætur sem sveitarfélög hafa fram til þessa séð um að greiða, sbr. ný lög nr. 75/2016 sem samþykkt voru á Alþingi 16.  júní sl.

Gagnvart sveitarfélögum er stærsta breytingin sú að greiðsla sérstaks húsnæðisstuðnings verður lögbundið verkefni félagsþjónustu sveitarfélaga. Frá og með næstu áramótum verður þessum sérstaka húsnæðisstuðningi ætlað að lækka greiðslubyrði vegna húsnæðiskostnaðar hjá þeim sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði eða eru með íþyngjandi húsnæðiskostnað sökum:

a)            lágra tekna / lítilla eigna,
b)           þungrar framfærslubyrði og
c)            félagslegra aðstæðna.

Húsnæðisbætur (áður Almennar  húsaleigubætur greiddar frá sveitarfélögum) verða því verkefni ríkisins frá og með 1.  janúar 2017.  Sótt er um húsnæðisbætur  á heimasíðu greiðslustofu húsnæðisbóta: www.husbot.is  Þar er að finna ýmsar upplýsingar, t.d. spurt og svarað um húsnæðisbætur.

Sérstakur húsnæðisstuðningur (áður sérstakar húsaleigubætur) verður nú lögbundið verkefni sveitarfélaga frá og með 1. janúar 2017.  Á fundi félagsmálaráðs Dalvíkurbyggðar þann 13. desember sl.  samþykkti ráðið að fela starfsmönnum félagsþjónustu  að gera drög að reglum varðandi sérstakar húsnæðisbætur Dalvíkurbyggðar og að þær verði teknar fyrir á næsta fundi félagsmálaráðs.  Nánari upplýsingar um sérstakan húsnæðisstuðning veitir Eyrún Rafnsdóttir í síma 460 4900.