Ný jafnréttisáætlun Dalvíkurbyggðar

Á síðasta fundi bæjarstjórnar Dalvíkurbyggðar þann 1. nóvember var samþykkt ný jafnréttisáætlun fyrir Dalvíkurbyggð. Árið 1995 var gerð jafnréttisáætlun fyrir Dalvíkurbyggð en vegna lagabreytinga árið 2000, þegar ný jafnréttislög voru gefin út, var ný Jafnréttisáætlun búin til núna sem gildir frá 2005-2008. Ný jafnréttisáætlun er því töluvert breytt frá þeirri fyrri og í samræmi við þær lagabreytingar sem voru gerðar.

 Jafnréttisáætluninn skiptist upp í 3 kafla: 1. Markmið Jafnréttisáætlunar, 2. Ábyrgð og 3. Stjórnun jafnréttismála Dalvíkurbyggðar. Ekki verður farið efnislega út í þær breytingar sem gerðar voru á áætluninn en í ljósi umræðunnar í samfélaginu má benda á að í kaflanum um Markmið Jafnréttisáætlunar er fjallað sérstaklega um það að konur og karlar skuli njóta sambærilegra kjara og réttinda og að greiða skuli konum og körlum jöfn laun fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf.

Jafnréttismál falla undir félagsmálaráð Dalvíkurbyggðar og starfar á grundvelli 10. greinar laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 96/2000. Félagsmálaráð fer með stefnumótun á sviði jafnréttismála hjá Dalvíkurbyggð, er ráðgefandi fyrir bæjarstjórn í málefnum er varða jafnrétti kvenna og karla og hefur frumkvæði að sérstökum aðgerðum til að tryggja jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Þá hefur Fflagsmálaráð eftirlit með framkvæmd Jafnréttisstefnu Dalvíkurbyggðar. Einnig kemur fram í Jafnréttisáætluninni að Dalvíkurbyggð skuli leggja reglulega fyrir könnun á kjörum og starfsaðstæðum kvenna og karla sem starfa hjá sveitarfélaginu og er sú framkvæmd einnig í höndum félagsmálaráðs.

Þeir sem vilja kynna sér nánar innihald Jafnréttisáætlunar Dalvíkurbyggar geta smellt hér eða farið undir stjórnsýslu og fundið þar reglugerðir og samþykktir Fjármála - og stjórnsýslusviðs.

Hér er einnig að finna tengil inn á Jafnréttislögin nr. 96/2000