Náttúrusetur formlega stofnað

 
Náttúrusetur á Húsabakka var formlega stofnsett á fundi á Rimum í gær. Jafnhliða var sett á fót sjálfseignarstofnun um reksturinn en í henni eiga fjórir aðilar stofnhlut. Það eru: Hollvinafélag Húsabakka, Dalvíkurbyggð, KEA og Sparisjóður Svarfdæla. Í þriggja manna stjórn eiga sæti; Trausti Þórisson f.h. Hollvinafélagsins, Hildur Ösp
Gylfadóttir f.h. Dalvíkurbyggðar og Haukur Snorrason f.h. KEA en varamenn eru Jónas Pétursson sparisjóðsstjóri og Jóhann Ólafsson bæjarfulltrúi í Dalvíkurbyggð.

Með náttúrusetrinu er hugmyndin að blása nýju lífi í skólahúsnæðið á Húsabakka sem hefur staðið vannýtt frá því regluleg skólastarfsemi lagðist af árið 2005 og tengja það Friðlandi Svarfdæla sem einnig hefur að mörgu leyti verið vannýtt auðlind í Svarfaðardal. Gert er ráð fyrir fjölþættri starfsemi við náttúrusetrið á þrem meginstoðum:
Skólabúðir með áherslu á umhverfisfræðslu, og umhverfisvernd. Fræðasetur með aðstöðu fyrir fræðimenn og háskólahópa og í þriðja lagi ferða og ráðstefnumiðstöð. Þá er einnig unnið að undirbúningi sýningar um Friðlandið og fuglana.

Undanfarið ár hefur verið unnið að undirbúningi stofnunarinnar og lagður grunnur að starfseminni s.s. með átaki í málum Friðlands Svarfdæla, gerð fræðimannsíbúðar, námsferðum fyrir skólahópa, fræðslufundum fyrir almenning, tengingum við háskólastofnanir ofl, ofl.