Mikil fækkun nemenda vinnuskólans

Mikil fækkun nemenda vinnuskólans

Nú er vinnuskóla-sumarið næstum hálfnað og hafa eflaust einhverjir bæjarbúar orðið varir við unglingana í gulu vestunum og flokksstjórana sem þeim fylgja í samskonar appelsínugulum vestum. Í ár fengum við blessunarlega gott vor og því er sprettan talsvert meiri í sumar en áður.

Í fyrra-sumar voru færri nemendur í Vinnuskólanum en gengur og gerist, og í ár eru enn færri. Auk þess sem að í ár eru færri flokksstjórar í starfi. Þetta þykir eðlileg þróun miðað við uppgang í samfélaginu, auk þess sem ungu fólki bjóðast auknir atvinnumöguleikar og hafa fjölmargir fengið störf annars staðar en í Vinnuskólanum. Þá ber einnig að nefna að færri nemendur eru fæddir í þeim árgöngum sem býðst að starfa í Vinnuskólanum en áður.

Okkur í Vinnuskólanum, líkt og öðrum, ber að fara eftir lögum og reglugerðum. Samkvæmt reglugerð um vinnu barna og unglinga nr. 426/1999 mega aðeins 15 ára og eldri unglingar vinna við sláttur með sláttuvélum og vélorfum. Þessi reglugerð setur okkur ákveðnar skorður en að sjálfsögðu gengur öryggi nemenda og starfsmanna fyrir. Í þessu samhengi ber að nefna að sumarið 2016 voru 43 unglingar starfandi hjá skólanum og níu flokksstjórar. Þar af máttu um 17 nemendur og níu flokksstjórar slá með sláttuvélum og 11 nemendur og sex flokksstjórar með orfi. Í dag starfa 23 unglingar í Vinnuskólanum (meðtaldir eru þeir sem eru í fríi), þar af má enginn unglingur slá með orfi og aðeins einn með sláttuvél. Auk þess eru aðeins fimm flokksstjórar, þar af þrír sem geta slegið með orfi.

Vanalega starfa 8. og 9. bekkur aðeins 3,5 klukkustundir á dag og vinna styttra fram á sumarið en 10. bekkingar. Vegna skorts á vinnuafli í ár var hins vegar öllum nemendum boðið að starfa í 6,5 klukkustundir á dag og allt fram að 18. ágúst. Þó eru ekki allir sem sjá sér fært að gera svo og meðal annars veldur það því að yfirferð okkar er hægari.

Þrátt fyrir fámenni telur undirrituð starfsmenn og nemendur skólans standa sig með prýði. Ekki má gleyma því að mikið álag er á okkur í Vinnuskólanum og þá sérstaklega á þeim sem slá með orfi og sláttuvélum. Þeir sem slá eru vanalega að því allan liðlangann daginn en því getur fylgt mikil þreyta og jafnvel líkamlegir verkir. Við leggjum þó mikið upp úr andlegri- og líkamlegri heilsu starfsfólks okkar og nemenda sem og öryggi þeirra og verðum við að leyfa þeim að hvíla sig á milli. Þá getur neikvætt viðhorf til vinnuskólans og skortur á skilningi bæjarbúa á stöðunni aukið streitu starfsmanna og nemenda sem jafnframt eru að reyna sitt besta í sínu starfi, með sínum takmörkuðu björgum, enda er hver einstaklingur að starfa á við þrjá.

Ég biðla til bæjarbúa að sýna starfsfólki, nemendum og unglingum, umburðarlyndi og skilning í sumar en undirrituð getur vottað það að enginn er skortur á dugnaði. Við reynum að komast yfir öll verkefni sem við fáum í hendurnar þó að í ár megi búast við því að það taki okkur lengri tíma. Við fögnum öllu ábendingum sem berast Vinnuskólanum en mig langar að biðja bæjarbúa að sýna okkur umburðarlyndi og jafnframt kurteisi þegar ábendingum og kvörtunum er komið til skila. Það eru allir að reyna sitt besta miðað við aðstæður.

Að lokum vil ég nefna að í ár eru allir flokksstjórar nýjir í starfi og megin þorri þeirra ekki frá svæðinu og þekkja því ekki vel til. Flokksstjórar þessir eru að standa sig ótrúlega vel en að vitaskuld tekur það tíma að komast inn í nýtt starf og að læra að þekkja nýtt svæði. Auk þess má ekki gleyma að hlutverk flokksstjóra er ekki aðeins umhirða á opnum svæðum og garðyrkja heldur hafa þeir einnig það hlutverk að gæta unglinganna, kenna þeim til verka, hafa eftirlit, umsjón og yfirsýn. Þá er hlutverk unglinganna ekki aðeins að sjá um garðyrkju heldur einnig að fræðast um hin almenna vinnumarkað, vinnutengd málefni og fleira, enda eru þeir nemendur í Vinnuskólanum. Hlutverk Vinnuskólans felur nefnilega ekki aðeins í sér umhirðu á opnum svæðum, heldur er einnig er um fræðslustofnun og skóla að ræða við biðjum fólk að sýna því virðingu.

 

Fyrir hönd Vinnuskólans í Dalvíkurbyggð

María Bjarnadóttir, forstöðumaður

vinnuskoli@dalvikurbyggd.is