Landsmót Samfés - Týr fékk fulltrúa í ungmennaráð

Landsmót Samfés, samtaka félagsmiðstöðva á Íslandi, fór fram á Hvolsvelli um helgina en þetta er árviss viðburður þar sem um 400 unglingar úr félagsmiðstöðvum landsins koma saman, mynda tengsl og kynnast nýjum hugmyndum sem hægt er að nýta í starfi félagsmiðstöðvanna.


Margvísleg málefni voru til umræðu á landsþinginu eins og til dæmis einelti og kynfræðsla.


Á laugardaginn tóku unglingarnir þátt í fjölmörgum smiðjum þar sem þau fræddust meðal annars um óformlegt nám, jafnrétti og femínisma og þjálfuðust í ræðumennsku, viðburðastjórnun og útivist. Meðal annars var gengið upp á Stóra Dímon og í Tumastaðaskógi var farið í leiki og gerðar tilraunir með útieldun. Markmiðið er að ungmennin miðli af reynslu sinni og þekkingu í sinni félagsmiðstöð.


Á landsmótinu kusu unglingarnir fulltrúa sína í ungmennaráð Samfés. Markmið þess er að efla samfélagslega vitund ungs fólks og styðja það til frekari þátttöku í lýðræðislegum ákvörðunum, bæði í sínum heimabæ og á landsvísu.


Félagsmiðstöðin Týr sendi frá sér fjóra fulltrúa í ár ásamt einum starfsmanni. Hápunktur helgarinnar var þegar kosið var í ungmennaráð Samfés og var einn nemandi í framboði fyrir okkar hönd. Skipt er landinu í 9 kjördæmi og komast tveir inn úr hverju kjördæmi, einn sem aðalmaður og einn sem varamaður. Aldrei í sögu kosninganna hefur frambjóðandi utan Akureyrar komist inn úr okkar kjördæmi en í ár varð breyting á. Sunneva Halldórsdóttir nemandi úr 10. bekk Dalvíkurskóla gerði sér nefnilega lítið fyrir og sigraði kosningarnar úr okkar kjördæmi og komst því inn sem aðalmaður. Því fylgir mikil vinna og til að mynda flýgur hún til Reykjavíkur einu sinni í mánuði þar sem hún fundar stíft með öðrum meðlimum ráðsins. Sunneva er vel að þessu komin, enda mjög málefnanleg og klár stelpa sem á eflaust eftir að standa sig frábærlega sem aðalmaður í ungmennaráði Samfés.

Til hamingju Sunneva!

Viktor Már Jónasson
Félagsmiðstöðinni Tý