Keppt í glæsilegu kastbúri á Dalvík

Nú hafa verið haldinn tvö kastmót í nýju og glæsilegu kastbúri á íþróttasvæðinu á Dalvík. Búrið er frekar einfalt að gerð en mjög voldugt og vandað. Keppendur eru mjög ánægðir með búrið og er öruggt að það verður mikið keppt í því í framtíðinni.

Á fyrra kastmótinu ( 1. kastmóti Svarfdæla ) sem var framhald á aldursflokkamóti UMSE var keppt í sleggjukasti, kringlukasti og spjótkasti. Aðstæður voru alls ekki keppendum í hag mikill vindur,kuldi og rigning. Engu að síður voru sett þrjú aldursflokkamet, og þar af leiðandi vallarmet, í sleggjukasti.

Guðmundur Smári Daníelsson UMSE bætti tvö aldurflokkamet þegar hann kastaði 3 kg. sleggjunni 38,64 m. og bætti sitt eigið met. Hann setti einnig aldursflokkamet með karlasleggjunni ( 7,25 kg. ) þegar hann kastaði 17,53 m. Guðmundur er 13 ára.

Fríða Björk Einarsdóttir UFA setti einnig aldurflokkamet með 2 kg. sleggju í 13 ára flokki stelpna. Fríða stórbætti met Sigurbjargar Áróru Ásgeirsdóttur UMSE þegar hún kastaði 40,44 m.

Á öðru vetrarkastmóti Svarfdæla sem haldið var 6. nóvember var keppt í kringlukasti og sleggjukasti. Þar stórbætti Guðmundur Smári Daníelsson UMSE sitt eigið met með 3 kg. sleggju þegar hann kastaði 44,94 m. og bætti metið um ríflega 6 m.

Aðrir keppendur stóðu sig vel og voru að bæta sinn persónulega árangur í sleggju og kringlu. Bertha Steingrímsdóttir u.m.f Reyni stórbætti sig í kringlukasti ( 27,87 m. ) og náði þriðja besta árangri ársins í 14 ára flokki stúlkna. Rakel Jóhannsdóttir u.m.f Smáranum er búin að vera að bæta sig mikið í sleggjukasti með 2 kg. sleggju ( 28,21 m ) og er hún einnig farinn að höggva nálægt Íslandsmetinu í sínum aldursflokki sem er 29,03 m. Erla Marí Sigurpálsdóttir frá Ólafsfirði stórbætti sig einnig í kringlukastinu þegar hún kastaði 23,64 m.