Jólaskreytingakeppni Dalvíkurbyggðar 2006 - úrslit

Jólaskreytingakeppni Dalvíkurbyggðar 2006 - úrslit

Í ár líkt og í fyrra var dómnefnd mikill vandi á höndum að velja bestu og fallegustu skreytingar þar sem víða mátti finna stílhreinar og skemmtilegar skreytingar. Augljóst er að mikið var lagt í jólaskreytingar í ár. Víða í Svarfaðaradal eru fallegar skreytingar og hvetur dómnefndin alla til að bregða undir sig betri fætinum og fara rúnt um sveitarfélagið og skoða hversu vel er skreytt.

Verðlaunin í ár koma frá handverksfólki úr Dalvíkurbyggð og vill dómnefndin koma á framfæri þakklæti til Gallerý Mána, Dóttur Skraddarans og Tehettunnar Freyju fyrir veglegar og fallegar gjafir.

Eftir mikilar vangaveltur komst dómnefndin að eftirfarandi niðurstöðu:

Verðlaun hljóta eftirfarandi hús:

  • Hóll, Svarfaðardal. Atli Friðbjörnsson og Halla Karlsdóttir. Jólaljós vel uppsett og afar stílhreint skreytt hús. Í verðlaun fengu þau 12 manna ávaxtaskálasett úr gleri frá Gallerí Mána.
  • Tomman, Dalvík. Sigurjón Helgason og Sólrún Sveinbergsdóttir. Miklar og fallegar skreytingar - fallegur heildarsvipur á fallegu húsi. Í verðlaun fengu þau fallegt jólatré úr leir frá Línu í Dóttir Skraddarans.
  • Skíðabraut 15. Sigurður Jóhannsson og Jóna Berg Garðarsdóttir - Sérstaklega fallegar og vandaðar gluggaskreytingar. Í verðlaun fengu þau tehettu frá Tehettunni Freyju.

Þess má geta að þegar dómnefnd bar að garði hjá þeim Sigurjóni og Sólrúnu mátti sjá að ekki var síður skreytt innan dyra en utan. Jólasveinar í hundruðavís upp um veggi og loft innan um falleg jólaljós.

Í ár verður eftirtöldum húsum veittar viðurkenningar:

  • Klapparstígur 19, Hauganesi -fyrir hlýlegar jólaskreytingar.
  • Uppsalir, Svarfaðardal - fyrir mikla jóla og skreytingagleði.
  • Sunnubraut 9 - fyrir fallegar jólaskreytingar

Einnig vill nefndin vekja athygli á Ásveginum á Dalvík en þar eru afar vel skreytt hús sem gefa götunni heildstæða mynd.

Að lokum vill dómnefndin jafnframt vekja athygli á því hversu vel stofnanir og fyrirtæki í Dalvíkurbyggð eru vel skreytt, allir leikskólarnir og Grunnskóli Dalvíkurbyggðar, Tónlistarskóli Dalvíkurbyggðar, Sundlaug Dalvíkur og skemmtilegar skreytingar í gluggum á Dalbæ. Einnig er Samherji hf. vel skreytt, stílhreint og vel gert. Jólaþorp hefur nú risið í þjónustuveri Dalvíkurbyggðar og hvetur nefdin íbúa sveitarfélagsins og aðra sem eiga leið um að koma við og skoða, einnig hefur ný skreyting bæst við á þak Ráðhússins en það voru starfsmenn Vélvirkjans ásamt Jóni Arnari Sverrissyni garðyrkjustjóra sem komu skreytingunni fyrir.   

Dómnefndinni í ár þótti gaman að sjá hversu mikið og fallega er skreytt víða og eins og áður sagði átti dómnefndin erfitt starf fyrir höndum.

Njótið ljósanna og hátíðarinnar. Gleðileg Jól.

Hér fyrir neðan má sjá vinningshafa ásamt Jóni Arnari Garðyrkjustjóra Dalvíkurbyggðar.

Hóll jól 2006

 

 

 

 

 

Sunnubraut 9 jól 2006

SKíðabraut 15 jól 2006  Klapparstígur jól 2006