Jákvæðar fréttir frá Veitu- og hafnasviði

Graftrarprammi mættur á svæðið
Graftrarprammi mættur á svæðið

Stjórnsýsla Dalvíkurbyggðar skiptist í fimm svið. Veitu- og hafnasvið er eitt þeirra og starfa þar 7 starfsmenn. Um er að ræða nokkuð fjölbreytta starfsemi en þau B-hlutafyrirtæki sem falla undir sviðið eru: Hafnasjóður Dalvíkurbyggðar, Vatnsveita Dalvíkurbyggðar, Hitaveita Dalvíkur og Fráveita Dalvíkurbyggðar. Einnig sér Hitaveitan um gagnaveitu og væntanlega smávirkjun sem fyrirhuguð er í Brimnesá.

Hafnasjóður Dalvíkurbyggðar

Mikil ánægja og gleði var í Dalvíkurbyggð þegar nýi hafnagarðurinn, sem hefur fengið heitið Austurgarður, var formlega vígður í nóvember sl. Vinna við hann hefur staðið yfir frá árinu 2017, þó áform um gerð hans hafi komið fram nokkrum árum fyrr. Við hönnun hans var horft til þess að þau skip sem við hann liggja gætu fengið þá orku sem þau þurfa hvort heldur sem er rafmagn eða heitt vatn. Rafmagnstengiskápar eru þrír með allt að 250 A tengimöguleika hver, en togarar Samherja gætu þurft 2x250A tengingu og mögulega væri hægt að halda skipum heitu með landtengingu hitaveitu. Nú þegar þetta er skrifað þá er graftrarpramminn mættur á svæðið til að ljúka dýpkun við Austurgarð og viðhaldsdýpkun við Norðurgarð.

Vatnsveita Dalvíkurbyggðar

Hjá Vatnsveitu verða þau verkefni helst að verið er að athuga með nýjan vatnstökustað fyrir Árskógsströnd fram í Þorvaldsdal. Þetta verkefni er langhlaup og krefst mikils undirbúnings hvað varðar rannsóknir á getu svæðisins til þess að standa undir þeirri vatnsnotkun sem nauðsynleg er fyrir byggðina sem hún á að þjóna.

Á Bakkaeyrum í Svarfaðardal er vatnstökustaður vatnsveitunnar fyrir Dalvík og nær sveitir. Á áætlun ársins er gert ráð fyrir endurnýjun og tengingum á tveimur dælum af fjórum þar. Afköst hjá nýju dælunum eru töluvert meiri en þeim gömlu, sem er gott því vatnsnotkun hefur vaxið nokkuð á síðustu árum.

Hitaveita Dalvíkur

Það hefur verið mikil framsýni hjá þeim aðilum sem börðust fyrir því að hitaveitu yrði komið á fót sem mundi þjóna Dalvík, en hún var formlega tekin í notkun á árinu 1969. Virkjunarsvæðið að Brimnesborgum var tekið í notkun 1999 og voru virkjunarsvæðin samtengd á árinu 2007 þegar hitaveitan var lögð í Svarfaðardal. Nú er svo komið að viðskiptavinir veitunnar eru um 890 talsins og eru nú einungis 22 íbúðarhús í Dalvíkurbyggð án hitaveitu. Um árabil hefur hitaveitan unnið að því að koma sér upp varabúnaði til þess að tryggja traustan rekstur veitunnar. Með aukinni starfsemi í starfstöð veitna við Sandskeið var orðin nauðsyn á að byggja geymsluskála til að vel færi um þann viðkvæma búnað sem tryggir öryggi hitaveitunnar. Það verkefni er á framkvæmdaáætlun ársins, undirbúningur að byggingu er hafinn og mun ljúka á þessu ári.

Eins og fram kom í inngangi þá er á fjárhagsáætlun þessa árs að hefja undirbúning á byggingu smávirkjunar í Brimnesá og er stefnt að íbúafundi á haustdögum til að kynna verkefnið. Til þess að slíkur fundur verði gagnlegur fyrir íbúa er nauðsynlegt að vinna meira í verkefninu með öflun upplýsinga og gera frumhönnunar virkjunina sýnilegri.

Fráveita Dalvíkurbyggðar

Það að tryggja að útræsi fráveitna uppfylli kröfur kallar á býsna kostnaðarsamar aðgerðir en samkvæmt reglugerð, er gerð krafa um hreinsun á því skólpi sem í viðtaka fer, en Eyjafjörður er skilgreindur sem síður viðkvæmur viðtaki og taka hreinsistöðvarnar allar mið af þeim kröfum sem uppfylla þarf. Í þéttbýli Dalvíkurbyggðar er fráveitukerfið einfalt, en merking þess er að bæði regnvatn af götum og lóðum og einnig bakrennsli hitaveitu fer um lagnakerfi fráveitunnar. Sá áfangi mun nást á þessu ári að yfir 90% af því fráveituvatni sem um útræsi fer mun verða hreinsað. Þetta á við alla þéttbýliskjarna Dalvíkurbyggðar þ.e. Dalvík, Árskógssand og Hauganes. Þetta er stór áfangi fyrir okkur öll og mikið gleðiefni.

Undirritaður skorar á Magnús G. Ólafsson, skólastjóra Tónlistarskólans á Tröllaskaga, að skrifa um fjölbreyttu starfsemi sem fram fer í tónskólanum í næstu grein.

Nú skulum við njóta sumarsins og horfa björtum augum til framtíðar.

Gleðilegt sumar
Þorsteinn Björnsson, sviðsstjóri veitu- og hafnasviðs.