Ímynd Dalvíkurbyggðar – fjölskylduvænt, friðsælt og öruggt umhverfi

Ímynd Dalvíkurbyggðar – fjölskylduvænt, friðsælt og öruggt umhverfi

Ímynd Dalvíkurbyggðar er verkefni sem staðið hefur yfir frá  árinu 2014 en þá var það fyrst samþykkt sem hluti af starfsáætlun fjármála- og stjórnsýslusviðs.  Í grunninn var markmiðið að fá heildstæða mynd af ímynd sveitarfélagsins til að nota í kynningarskyni. Fljótlega varð þó ljóst að til þess að fá heildstæða mynd af ímynd sveitarfélagsins þyrfti að kafa dýpra í málefnið en upphaflega hafði verið rætt enda ímynd svæðis byggð upp á mörgum samverkandi þáttum.   Verkefnið hefur því  verið unnið út frá þremur þáttum: Dalvíkurbyggð sem vinnustaður, Dalvíkurbyggð sem þjónustuveitandi og Dalvíkurbyggð sem samfélag. Unnið hefur verið með hvern lið fyrir sig;  byrjað á vinnustaðnum, svo þjónustunni og núna síðast hefur verið unnið með samfélagið.

Í byrjun árs 2017 samþykkti  atvinnumála- og kynningarráð að senda út könnun um ímynd Dalvíkurbyggðar og var upplýsingafulltrúa falið að sjá um verkefnið. Könnunin var liður í því að vinna með samfélagshluta verkefnisins en markmiðið var að fá einhverja sýn á upplifun íbúa og annarra af Dalvíkurbyggð sem sveitarfélagi. Alls bárust 211 svör af öllu landinu. Heildarfjöldi spurninga í könnuninni var 18.

Helstu niðurstöður úr ofangreindri könnun endurspegla að ímynd Dalvíkurbyggðar er almennt mjög jákvæð og einkennist helst af fjölskylduvænu, friðsælu og öruggu umhverfi þar sem kraftur og náttúrufegurð umvefur samfélagið.

Svarendur nefndu þætti eins og; fjölskylda, gott að búa, gott samfélag og samheldið sveitarfélag á mörgum sviðum, öryggi, heima, fegurð, friðsæld, jákvætt, framsýni, lifandi, áhugaverð, náttúran, skíði, Fiskidagurinn mikli, líflegt og fjölbreytt félagslíf og hátt þjónustustig.

72% svarenda telja að Dalvíkurbyggð hafi mjög eða frekar góða ímynd og 74% telja að Dalvíkurbyggð sé mjög eða frekar góður búsetukostur.

Atvinnumála- og kynningarráð mun nú vinna áfram með niðurstöðurnar og gera áætlanir um frekari vinnu og verkefni sem tengjast ímynd sveitarfélagsins.

Þeir sem hafa áhuga á því að kynna sér nánar  niðurstöður könnunarinnar um Ímynd Dalvíkurbyggðar geta nálgast skýrsluna hér fyrir neðan.

Ímynd Dalvíkurbyggðar - niðurstöður