Íbúasamráð – umsögn um Grænbók, stefnu í málefnum sveitarfélaga, framtíðarsýn.

Íbúasamráð – umsögn um Grænbók, stefnu í málefnum sveitarfélaga, framtíðarsýn.

Byggðaráð samþykkti á fundi sínum þann 23.maí að óska eftir umsögn frá íbúum sveitarfélagsins um Grænbók sem nú er í umsagnarferli í samráðsgátt stjórnvalda.

Ef íbúar vilja hafa áhrif á umsögn Dalvíkurbyggðar eða koma með ábendingar skal senda það í tölvupósti á katrin@dalvikurbyggd.is fyrir 31.maí n.k.
Einnig geta íbúar eða samtök sent umsagnir beint inn í samráðsgáttina fyrir 3.júní 2019.

Grænbók um stefnu í málefnum sveitarfélaga

Grænbók um stefnu ríkisins í málefnum sveitarfélaga hefur verið lögð fram í samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar. Þær umræður og ábendingar sem fram koma í tengslum við umræðuskjalið verða nýttar til að fullvinna drög að tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga. Er þetta í fyrsta skipti sem mótuð verður heildstæð stefna um sveitarstjórnarstigið.

Grænbókin er umræðuskjal en almenningi og hagsmunaaðilum er boðið að leggja fram sín sjónarmið um álitaefni, viðfangsefni og framtíðarsýn sem nýst gætu í stefnumótuninni. Í grænbókinni eru settar fram 50 lykilspurningar sem tengjast viðfangsefninu og vonir standa til að komi að gagni í stefnumótunarferlinu. Allir hafa tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar og er því um að ræða mikilvægt tækifæri til að hafa áhrif á stefnumótunina. Frestur til að skila umsögn er til og með 3. júní 2019.

Vinna við stefnumótunina miðar við að unnt verði að kynna drög að þingsályktunartillögu um stefnumótandi áætlun í júní 2019. Efni og inntak stefnunnar verði síðan til umfjöllunar á 150. löggjafarþingi í haust, auk fleiri þingmála sem kunna að tengjast einstökum aðgerðum stefnumörkunarinnar.

Stefna í málefnum sveitarfélaga

Meginmarkmið í stefnumótun í málefnum sveitarfélaga er að draga saman meginþætti langtímastefnumörkunar ríkisins í þeim málaflokkum sem snúa að verkefnum sveitarfélaga og stuðla að samræmingu í stefnumótun ríkis og sveitarfélaga á þeim sviðum með heildarhagsmuni sveitarstjórnarstigsins að leiðarljósi. Jafnframt að setja fram leiðarljós um hvert stefna skuli í málefnum sveitarstjórnarstigsins með eflingu þess og sjálfbærni að markmiði.

Samkvæmt sveitarstjórnarlögum skal ráðherra sveitarstjórnarmála leggja að minnsta kosti á þriggja ára fresti fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun ríkisins um málefni sveitarfélaga til fimmtán ára í senn. Í áætluninni skal jafnframt mörkuð aðgerðaáætlun til næstu fimm ára á þessu sviði. Um er að ræða nýmæli sem er hliðstæð annarri áætlanagerð á verksviði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.

Áhersla er lögð á gott og víðtækt samráð við mótun stefnunnar til viðbótar við það samráð sem þegar hefur farið fram í samstarfi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, annarra ráðuneyta og Sambands íslenskra sveitarfélaga um stöðu og framtíð sveitarstjórnarstigsins.

Skoða grænbók í samráðsgátt stjórnvalda