Húsabakkaskóli - september Tengja

September  -Tengja
Húsabakka 17. september 2003

Heil og sæl,

skólinn er kominn vel af stað og það er ánægjulegt hve allt hefur farið vel í  gang að loknu sumarleyfi. 

Framkvæmdir:

Málararnir sem voru hér að mála kennslustofur þegar nemendur mættu í skólann hafa lokið verki sínu þar en eru byrjaðir að snurfusa ganginn á ytri vistinni, þvottahúsið og ganginn framan við það.

          Gröfukallarnir sem tóku að sér að setja niður leiktækin sem konur í kvenfélaginu Tilraun gáfu skólanum eru nú byrjaðir á verkinu. Greinilegt er að þetta er nú meiri vinna og jarðrask en bæði undirrituð og húsvörðurinn höfðu gert sér í hugarlund. Svo nú er bara að bíða enn og láta sig hlakka enn meira til að geta rennt sér og rólað á splunkunýjum leiktækjum.

Heimasíðan:

Húsabakkaskóli hefur fengið nýja heimasíðu http://husabakkaskoli.ismennt.is/  Á henni er að finna helstu upplýsingar um skólann og starfsemi hans.  Enn á þó eftir að setja inn texta á sumar síðurnar en á næstu vikum stendur það allt til bóta. Starfsfólk skólans hefur tekið að sér að fylla þær að fróðleik.

Þar eru nú þegar tilbúin myndasíða, fréttasíða og þar er líka hægt að nálgast matseðil mötuneytisins 14 daga fram í tímann. Einnig hefur Tengja fengið þar pláss; þrátt fyrir það mun hún áfram berast á bæi í pappírsformi og líka verða birt á heimasíðu Dalvíkurbyggðar.

Gönguferðir:

Nemendur og starfsfólk hafa nú þegar farið í eina gönguferð og frestað annarri. Við bíðum eftir að veðrið sé okkur í hag og þá göngum við í Fossdalinn. Ferðatengja kemur þá heim með nemendum með skömmum fyrirvara.

Samvera á sal:

Föstudaginn 19. september kl. 8:40-9:10 verður samvera með söng og upplestri í litla salnum á Rimum. Allir eru velkomnir.


Haustfundur foreldra:

Haustfundur foreldra verður þriðjudaginn 23. september kl. 20:30 og í þetta sinn byrjum við hann í litla salnum á Rimum. Við ætlum að byrja á því að ræða lítillega um skýrslu Háskólans á Akureyri um framtíðarskipulag grunnskólamálefna í Dalvíkurbyggð, síðan að ræða skólastarfið á komandi vetri og að lokum fá okkur kaffi og góðgæti.

Það stendur til að fá til okkar annan þeirra sem unnu að skýrslunni en þegar þetta er ritað er það ekki alveg orðið ljóst. En hvort sem þeir koma eða ekki byrjum við í litla salnum á Rimum og ræðum skýrsluna.

Til þess að umræðurnar nýtist sem best vil ég hvetja foreldra til þess að kynna sér skýrslu Háskólans, hana er að finna á heimasíðu Dalvíkurbyggðar, undir flipanum fræðslusvið en slóðin þangað er: http://dalvik.is/?sida=sidur/sidur.asp&id=19

 

Danskennsla:

Fyrri lota vetrarins í danskennslu er hafin og lýkur henni 21. október. Kennari er Jón Þór Antonsson. Hann kenndi nemendum breik-dans á síðustu vistarviku. 

          Kennt er á þriðjudögum í litla salnum á Rimum og á eftirfarandi tímum:

Kl.

Bekkur

8:30-9:10

4. og 5. bekkur

9:30-10:10

Leikskóli og 1.-3. bekkur

10:15-10:55

6. 7. og 8. bekkur

11:00-11:45

Eigum þennan upp á að hlaupa ef leikskólinn vill vera út af fyrir sig.

Fyrsta gisting vetrarins:

Fyrsta gisting eldri nemenda verður miðvikudaginn 1. október. Gistingin hefur í þetta skiptið verið færð vegna þess að búið var að leigja út litla salinn fyrir fund og ekki er bæði hægt að hafa fund og diskó á sama stað á sama tíma.

Annað:

Við söknum nokkurra tölvudiska með kennsluforritum úr tölvustofunni. Við viljum biðja foreldra að athuga heima hjá sér hvort þar leynast nokkuð eftirtaldir diskar: Play with words, Undur líkamans og Reiknibíllinn.

Með kveðju frá Húsabakka

Ingileif