Hús vikunnar - Höfn, Karlsrauðatorg 4

Hús vikunnar - Höfn, Karlsrauðatorg 4

Höfn 1905 (Karlsrauðatorg 4)

(Fasteignamat 1931)
Lóð 120 m2 ógirt eignarlóð. Hús 7,5 x 6,25 m vegghæð frá kjallara 3,0 m, rishæð 2,0 m. Kjallari steinsteyptur, hús úr timbri, pappaklætt, þak úr timbri járnklætt, gólf, loft og skilrúm úr timbri. 2 íbúðir, 6 herbergi. 1 reykháfur. Rakalaust en kalt. Byggt 1904 eigandi Oddur Jónsson skósmiður. Áfastur timburskúr 3,13 x 2,5 m. Timburskúr við sjó 3,75 x 2,2 m með járnþaki.

(Skrá yfir hús og bæi á Dalvík 2. júní 1934. úr skýrslu Jarðskjálftanefndar)
Tréhús – portbyggt á steyptum kjallara. Litlar skemmdir á húsinu en reykháfur þarfnast viðgerðar. Húsráðendur; 1) Kristján Hallgrímsson og Guðlaug Þorvaldsdóttir. 2) Anders Valders og Jakobína Valdes.

Stutt saga húss.
Árið 1905 kom Sigurður Jóhannsson frá Göngustöðum sé r upp vænu timburhúsi í landi Brimness og nefndi Höfn. Húsið var ”12 x 9 álnir, timburhús með járnþaki, pappaklætt að utan með kjallara”. Það var portbyggt með allháu risi og kvisti, og er hið ytra að mestu með sömu ummerkjum og þegar það var reist. Yfirsmiður var Helgi Ólafsson (Saga Dalvíkur II. bindi bls. 408)
Eigendur og húsráðendur 1918 voru Stefán Jónsson frá Brimnesi og f.k.h. Eyvör Tímóteusdóttir. Í húsinu bjuggu þá auk þeirra Hallgrímur Gíslason sjómaður úr Gíslabúð, Dalvík, og k.h. Hansína Jónsdóttir frá Miðkoti.
Júlíus Eiðsson og Valgerður Þorbjarnardóttir keyptu húsið af Kristjáni Hallgrímssyni árið 1957 og áttu það í 37 ár. Þegar þau keyptu húsið var þeim sagt að húsið yrði fjarlægt fljótlega vegna gatnagerðar. Fljótlega eftir að þau eignuðust húsið skiptu þau um glugga og breyttu þeim. Þar höfðu verið krosspóstar en þau settu glugga með einum þverpósti í staðinn. Júlíus byggði lítið forskyggni eða inngangsskúr við  vesturinngang hússins og einnig lagfærði hann þak á skúr norðan við húsið. Árið 1993 keypti Helga Matthíasdóttir Höfn af Júlíusi og Valgerði. Hún lét rífa forskyggnið og byggði stærri forstofu með risþaki í staðinn, sem stendur enn. Nokkrir eigendur hafa komið að húsinu síðasta áratuginn en núverandi eigandi þess er húsleigufyrirtækið Black Munke ehf. Eftir að það eignaðist húsið hafa verið gerðar talsverðar endurbætur, einkum þó innanhúss. Gluggar hafa verið settir í upprunalegt form. Skúrbyggingin sem var norðan hússins var rifin.

Athugasemdir um hús.
Húsið er þokkalega vel við haldið, en skúr sem stóð norðan við húsið hefur nýlega verið rifinn og er ekki búið að ganga frá útveggnum þar sem skúrinn tengdist húsinu.

Athugasemdir um hús.
Húsið stendur á ógirtri lóð og eru engin tré og ekki umhirtur garður.


Eigenda og íbúaskrá