Hugleiðingar sveitarstjóra

Nú er að ganga í garð sumarleyfistíminn hjá starfsfólki Dalvíkurbyggðar. Þá fjölgar í starfsmannahópnum því við bætist fólk í sumarafleysingar og einnig er vinnuskólinn að hefja göngu sína nú í byrjun júní. Þarna er m.a. fólk að koma til vinnu eftir vetrarlanga skólavist og einnig eru einstaklingar sem eru að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði. Það er mikilvægt að starfsfólk sé þolinmótt og gefi sér tíma til að ráðleggja og leiðbeina þeim sem koma nýir til starfa. Þá er gott að vita til þess að í stofnunum sveitarfélagsins er reynslumikið fólk sem getur miðlað til þessara einstaklinga af sínum viskubrunni. Þannig skapast jákvæður vinnuandi og allir græða.

Byggðaráð hefur formlega hafið vinnu við fjárhagsáætlun 2020 með samþykkt um fjárhagsáætlunarferli og tímaramma að starfs-og fjárhagsáætlun 2020-(2023). Fyrstu skrefin eru umræður og tillögur að verkefnum, framkvæmdum, áherslum og stefnu. Auglýst er eftir erindum, umsóknum, tillögum og ábendingum íbúa, félagasamtaka og fyrirtækja í Dalvíkurbyggð um mál sem varða gerð fjárhagsáætlunar og er gert ráð fyrir að skrifleg erindi berist fjármála-og stjórnsýslusviði í síðasta lagi mánudaginn 2.september 2019. Síðasti fundur sveitarstjórnar fyrir sumarfrí er 18.júní.