Hollvinafélagið - hattur yfir Húsabakka

Aðalfundur Hollvinafélags Húsabakka var haldinn í gær í Rimum. Í skýrslu stjórnar kom m.a. fram að á þessu fyrsta ári félagsins hefði ýmsu verið komið áleiðis varðandi rekstur Náttúruseturs og framkvæmdir í Friðlandi Svarfdæla. Sökum ófyrirséðra tafa við stofnun sjálfseignarstofnunar utan um Náttúrusetrið kom það í hlut Hollvinafélagsins að halda utan um þann rekstur þetta fysta ár þess. Frá og með áramótum er rekstur Náttúrusetursins hins vegar kominn í hendur sjálfseignarstofnunar og úr höndum Hollvinafélagsins.

Í framhaldi af því urðu miklar umræður um hlutverk Hollvinafélagsins og breyttar áherslur í því augnamiði að félagið virki sem eins konar hattur yfir alla starfsemi á Húsabakka. Niðurstaða fundarins var sú að þeir aðilar sem eru með starfsemi á Húsabakka ynnu að breytingum á lögum félagsins með áðurnefnd sjónarmið að leiðarljósi og samþykkt að boða til framhaldsaðalfundar þegar því starfi væri lokið.

Skýrslu stjórnar má lesa alla hér