Hagnaður af rekstri sveitarfélagsins samkvæmt ársreikningi ársins 2018

Hagnaður af rekstri sveitarfélagsins samkvæmt ársreikningi ársins 2018

Ársreikningur Dalvíkurbyggðar árið 2018 var samþykktur í sveitastjórn þann 14. maí sl. og er nú aðgengilegur á heimasíðu sveitarfélagsins. Þar má einnig finna framsögu sveitarstjóra og sundurliðun.
Ársreikninginn má finna hér.

Niðurstaða ársreikningsins er góð og nokkuð umfram áætlun. Skýrist það að stærstum hluta af hærri tekjum en gert var ráð fyrir í öllum tekjustofnum. Nýtt var lögbundið hámark tekjustofna nema fasteignaskatts í A-flokki sem  var 0,50% en lögbundið hámark þar er 0,625%.

Íbúafjöldi 1.des 2018 var 1.904 en var 1.889 1.des. 2017 og fjölgaði því um 15 manns á milli ára.

Rekstrartekjur A hluta voru 2 miljarðar og 80 miljónir og rekstrargjöld 1 miljarður 820 miljónir kr. Rekstrarniðurstaða A hluta eftir afskriftir og fjármagnsliði var jákvæð um rúmlega 167 milj.kr en áætlun með viðaukum ársins 2018 gerði ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu að upphæð 114,7 milj.kr.

Rekstrartekjur A og B hluta voru samtals  2 miljarðar 431 miljón kr., þar af er útsvarið 40%, fasteignaskattur 4,9%, framlög úr Jöfnunarsjóði 25,7% og aðrar tekjur 29,5%. Rekstrargjöld samstæðunnar voru rúmlega 2 miljarðar kr.  Rekstrarniðurstaða samantekið A og B hluta eftir afskriftir, fjármagnsliði og tekjuskatt var jákvæð um rúmlega 222 miljónir en áætlun með viðaukum 2018 gerði ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu að upphæð 158 miljónum kr.

Skatttekjur námu um 71% af tekjum sveitarfélagsins. Af heildartekjum var ríflega 50% varið til greiðslu launa og launatengdra gjalda til starfsmanna sveitarfélagsins.

Veltufé frá rekstri A hluta er 310 milj kr. en veltufé frá rekstri fyrir A og B hluta sem er það reiðufé sem sveitarfélagið hefur til að standa skil á afborgunum skulda og til fjárfestinga er 433,2 milj kr. Samanborið við 343,4 milj kr. árið 2017.

Fjárfestingar fyrir A hluta voru rúmlega 180 milj.kr. og fyrir A og B hluta samtals  tæplega 294 milj.kr. en áætlun með viðaukum 2018 gerði ráð fyrir 291,7 milj.kr. Aukning varanlegra rekstrarfjármuna nam 281 milj.kr. á milli ára en stærstu einstöku eignfærslurnar eru vegna framkvæmda við Dalvíkurhöfn og sundlaugina á Dalvík.

Handbært fé í ársbyrjun var 221.461.000 kr en 170.105.000 kr í árslok.

Veltufjárhlutfallið var 1,21 fyrir A hluta en 1,22 fyrir A og B hluta.          

Langtímaskuldir við lánastofnanir voru í árslok 737.246.000 kr en í árslok 2017 voru þær 611.301.000 kr. Afborganir langtímalána fyrir samstæðuna voru 116,7 milj kr.

Ný lántaka á árinu 2018 var 214,5 milj.kr. og var það lán hafið til að klára greiðslu til Brú lífeyrissjóðs vegna samkomulags um lífeyrisskuldbindingar sem var undirritað í mars 2018. Heildarframlag Dalvíkurbyggðar í lífeyrissjóðinn skv.samkomulaginu var 274,4 milj.kr. Áhrif samkomulagsins kemur víðar fram í ársreikningnum en ítarlega er gerð grein fyrir atriðum samkomulagsins í skýringu 10 á bls. 15.

Skuldahlutfall er 68,9% fyrir A hluta en 65,3% samantekið fyrir A og B hluta.

Eigið fé A hluta var í árslok 2 miljarðar 335 miljónir en eigið fé samstæðunnar A og B hluta í árslok var 3 miljarðar og 79 miljónir kr samanborið við 2 miljarða 759 miljónir kr árið áður. Breytingin skýrist af afkomu ársins sem nam 222 miljónum króna og endurmati lóða og lendna sem nam 97 miljónum króna. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar er 64,8% í árslok og hækkar um 1,4% á milli ára.