Góð útkoma úr Vinnustaðargreiningu

Bæjarstjórn Dalvíkurbyggðar lét á dögunum IMG framkvæma Vinnustaðargreiningu fyrir alla starfsmenn Dalvíkurbyggðar. Er þetta í fyrsta skipti sem greining sem þessi er gerð fyrir sveitarfélag á Íslandi. Vinnustaðargreining er umbóta- og greiningartæki og tilgangurinn með framkvæmd hennar er að afla upplýsinga svo bregðast megi við áskorunum og halda í styrkleika sveitarfélagsins. Markmið þessarar greiningar var að kanna viðhorf starfsmanna hjá Dalvíkurbyggð til ýmissa þátta tengdum starfinu og starfsumhverfinu.  Nú er úrvinnslu lokið og niðurstöður ljósar. Fram kemur í skýrslu frá IMG að Dalvíkurbyggð er með áþekka eða heldur betri útkomu sé byggðarlagið borið saman við þau fyrirtæki sem IMG Gallup hefur unnið fyrir.  Helstu áskoranir í innra starfsumhverfi vinnustaða Dalvíkurbyggðar lúta að upplýsingastreymi, samvinnu milli stofnana/sviða og óljósrar stefnu eða stefnumótunar. Styrkleikarnir felast í góðum samskiptum við viðskiptavini (íbúa) og samstarfsfólk. Starfsmönnum finnst og að álit þeirra skipti máli og að jafnrétti ríki milli kynjanna.. Nú þegar niðurstöður hafa verið kynntar munu forstöðumenn og sviðstjórar vinna með þær með starfsfólki og er reiknað með að á haustmánuðum verði komin fram aðgerðaráætlun sem miði að því að bregðast við áskorunum og halda í og styrkja það sem vel er gert.