Fyrri gönguvika í Dalvíkurbyggð að hefjast

Sportferðir ehf. og Ferðatröll hagsmunasamtök ferðaþjónustuaðila í Dalvíkurbyggð standa að Gönguviku frá 26. júní til 5. júlí, en hún er nú haldin í annað sinn. Hugmyndina má rekja til Kristjáns Eldjárns Hjartarsonar á Tjörn í Svarfaðardal sem sér um leiðsögn í ár ásamt Önnu Dóru Hermannsdóttur á Klængshóli í Skíðadal. Í gönguvikunni verða farnar tvær göngur á dag, önnur fyrir vanari göngugarpa en hin öllu léttari. Meðal fjölmargra gangna má nefna að genginn verður gamli Múlavegur að nóttu til og farið í grasa- og lækningajurtagöngu frá Klængshóli í Skíðadal þar sem gengið er um land sem hefur lífræna vottun frá Vottunarstofunni Túni. Steinboginn og Gljúfrárjökull verða skoðaðir ásamt fjölmörgum toppum fjalla með útsýni um víðan völl. Haldnar verða kvöldvökur bæði í Stekkjarhúsi þar sem gert verður útá gangnamannastemningu og á Hauganesi þar sem haldin verður bryggjuhátíð.

Dagskrá gönguvikunnar: sjá www.dalvik.is/gonguvika