Framkvæmdir við Ungó

Framkvæmdir við Ungó

Nú standa yfir framkvæmdir við Ungó, en það er á þriggja ára áætlun sveitarfélagsins að endurgera húsið að utan.

Í ár verður skipt um þak yfir sal og sviði ásamt því að allar raflagnir í lofti verða endurnýjaðar. Þá verður lofthæðin í salnum hækkuð frá því sem var en það gerir það að verkum að mun betra verður að koma fyrir allri lýsingu á sviðinu. Áætlað er að verklok þessa áfanga verði í byrjun september 2013.

Ungó er byggt árið 1930 sem íþrótta- og samkomuhús og vígt 1. desember sama ár. Ungmennafélagið byggði húsið og dregur það nafn sitt af því. Frá upphafi hefur fjölbreytt starfsemi farið fram innan veggja hússins. Það var lengst af allsherjar samkomuhús og það hefur frá upphafi verið leikhús, sem er það hlutverk sem það hefur einkum gegnt undanfarin ár.


Árið 1951 var aukið við húsnæðið, í sundinu á milli samkomuhússins og húss Sigurðar P. Jónssonar sem í dag gengur undir nafninu Siggabúð, forstofu, fatageymslu, kvikmyndasýningarklefa og svölum. Frá þeim tíma fóru fram kvikmyndasýningar í húsinu ásamt annarri starfsemi.

Samhliða breytingum á Ungó fara fram breytingar í Siggabúð á vegum Bakkabræðraseturs. Opnað verður á milli Siggabúðar og anddyris Ungós, en í Sigtúni verður Bakkabræðrasetur ásamt kaffihúsi. Miðasala Leikfélags Dalvíkur mun einnig færast þangað. Markmiðið er að aukið líf verið í báðum húsum þegar þessum framkvæmdum er lokið.