Framboðsfundur í Dalvíkurbyggð

Framfarafélag Dalvíkurbyggðar boðar til framboðsfundar í Dalvíkurbyggð sunnudaginn 25. maí kl 14:00 í Bergi. Efstu menn allra lista, B, D og J, koma á fundinn, segja frá stefnu sinni og áherslum og svara spurningum 

Það verða stuttar framsögur, 7 mínútur á hvert framboð. Þrír af hverjum lista skipa svo pallborð og bregðast við spurningum og ábendingum. Fundarstjóri mun leggja knýjandi spurningar fyrir frambjóðendur. Fundargestum gefst kostur á að leggja fram spurningar fyrir framboðin skriflegar og í hljóðnema sem borinn verður um salinn. Í lokin fá framboðin svo stuttan tíma fyrir lokaorð.

Framfarafélag Dalvíkurbyggðar boðar til fundarins og vonast til þess að hann gangi snaggaralega fyrir sig og verði fjörugur. Þess verður vel gætt að framboðin þrjú njóti jafnræðis. Það er langt síðan slíkir sameiginlegir framboðsfundir hafa verið haldnir hér og má búast við fjölmenni á fundinum.

Fundarstjóri verður Birgir Guðmundsson, dósent og kennari við Háskólann á Akureyri.