Fræðsluskylda í hundrað ár!

Þann 19. maí árið 1909 var fræðslusamþykkt fyrir Svarfaðardalshrepp staðfest af stjórnarráðinu. Þar með var komin á fræðsluskylda í byggðarlaginu og skóli hefur verið starfræktur samfellt síðan. Samhliða fræðslusamþykktinni var staðfest reglugerð fyrir farskólahald í Svarfdælafræðsluhéraði. Hér eru því merk tímamót í fræðslumálum í dag, eitt hundrað ára saga barnafræðslu.


Í fræðslusamþykktinni er það tekið fram að Svarfaðardalshreppur skyldi vera eitt fræðsluhérað en að það skiptist, þar til öðruvísi yrði ákveðið, í 6 deildir, þannig að: 1. deild yrði á svæðinu frá Skáldalæk að Ytra-Hvarfi og færi kennslan fram á Hofi í 2 mánuði. 2. deild yrði Skíðadalurinn og færi kennslan fram í Hlíð í 2 mánuði. 3. deild yrði Svarfaðardalurinn út í Hreiðarsstaði og kennslan færi fram á Urðum í 2 mánuði. 4. deild yrði frá Hreiðarsstöðum út í Helgafell og færi kennslan fram á Grund í 2 mánuði. 5. deild yrði frá Helgafelli og út að Brimnesi og svæðið fyrir utan Hamarinn, með Skáldalæk, og færi kennslan fram á Dalvík í 2 mánuði. 6. deildin yrði svo frá Brimnesi út í Sauðanes og kennslan færi fram á Dalvík í 2 mánuði.


Eins og glöggir sjá náði Svarfaðardalshreppur á þessum tíma einungis yfir Svarfaðardal og Dalvík. Einnig hitt að form kennslunnar var farkennsla þannig að kennari fór á milli bæja og kenndi nemendum af nærliggjandi bæjum, nema á Dalvík þar sem útvega þurfti sérstakt húsnæði til kennslunnar. Samið var um leigu á húsnæði við forstöðunefnd bindindisfélagsins Fram, en það var húsið Frón. Þar var því fyrsti vísir að sérstöku skólahúsnæði. Tveir kennarar voru ráðnir og skyldu kenna 6 mánuði, frá fyrsta virka degi í október. Þeir voru Þórarinn Kristjánsson (Eldjárn) og Ólafur Jónsson (Ólafur barnakennari).


Öll börn í fræðsluhéraðinu áttu að njóta kennslunnar frá 10 ára til 14 ára aldurs. Skóladagurinn var 6 stundir á dag, frá kl. 9 að morgni til kl. 15, hver kennslustund 50 mínútur og 10 mínútna hlé á milli. Gert var ráð fyrir því að börnin kynnu að lesa þegar þau hæfu skólagöngu.


Samkvæmt fræðslulögum, sem fræðslusamþykkt og reglugerð byggðu á, var á þessum tíma heimilt að sleppa kristinsdómsfræðslu. Spurning um það virðist þó aldrei hafa komið upp í Svarfdælafræðsluhéraði. Aðrar kennslugreinar eru líka kunnuglegar; íslenska (lestur, skrift og réttritun), reikningur, saga, landafræði, náttúrufræði og söngur.


Ýmislegt fleira fróðlegt má lesa um fræðslusöguna í Sögu Dalvíkur og í ítarlegri grein í þremur hlutum í Norðurslóð í kringum ármótin 2003 – 2004.