Forvarnarverkefnið "Hugsað um barn"

Forvarnarverkefnið

10. bekkur Dalvíkurskóla tekur nú í fyrsta sinn þátt í forvarnarverkefninu "Hugsað um barn" og er annar skólinn á Norðurlandi sem tekur þátt í slíku verkefni. "Hugsað um barn" er alhliða forvarnarverkefni um lífsstíl unglinga sem hjálpar þeim að taka upplýstar ákvarðanir varðandi kynlíf, áfengi, mikilvægi þess að standa sig í námi og að hafa góða samvinnu við foreldra.

Markmið verkefnisins er að vekja unglinga til umhugsunar um afleiðingar kynlífs og því er leitast við að hafa áhrif á að þeir byrji að stunda kynlíf eldri en nú þekkist og af meiri ábyrgð.

 Nemendur 10. bekkjar í grunnskóla Dalvíkurbyggðar fengu í hendur dúkkur í gær sem þeir eiga að annast frá því kl. 20, þriðjudagskvöldið 2. maí fram til kl. 8:00 á næsta föstudagsmorgun 8. maí. Þannig kynnast þeir þeirri ábyrgð sem því fylgir að annast ungabarn. Nemendurnir þurfa því að hugsa um "börnin" í tvo sólarhringa og taka þau með sér hvert sem þau fara. Í morgun komu þau til dæmis í Ráðhúsið og fengu kynningu á stjórnkerfinu, stjórnsýslunni og fleira sem að því snýr hjá Svanfríði Jónasdóttur bæjarstjóra og að sjálfsögðu voru börnin með í för og létu þau sér það í léttu rúmi liggja þó að foreldrarnir væru uppteknir við lærdóminn.

Verkefnið hlaut tilnefningu til foreldraverðlauna Heimilis og skóla árin 2006 og 2007, var einnig tilnefnt til íslensku lýðheilsuverðlaunanna árið 2007. Hugmyndin að "Hugsað um börn" er upphaflega bandarísk.  Ólafur Grétar Gunnarsson og Bjarni Þórarinsson hjá ÓB ráðgjöf áttu frumkvæði að verkefninu hér á landi og sinna því enn  þann dag í dag.  Í samræmi við reynslu annarra þjóða af verkefninu má búast við betri árangri en áður þekkist um forvarnarverkefni hérlendis. Er þetta fyrsta forvarnarverkefnið hér á landi sem befur börnum tækifæri á að læra um forvarnir í gegnun upplifun.

"Barnið" er dúkka sem er hönnuð eins og ungabarn í útliti og hegðar sér sem slíkt. Vandað er til útlitsgerðar með mikilli nákvæmni og fer dúkkan eins nálægt raunveruleikanum eins og hægt er að komast. "Barnið" er sambærilegt ungabarni hvað varðar stærð, þyngd og höfuðhreyfingar. "Barnið er keyrt á tölvuforriti sem fylgist með hversu vel er hugsað um það". Það er gert á þann hátt að nemandinn fær armband áður en farið er heim með barnið og er armbandið bundið við þann einstakling á meðan á umhugsun stendur. Ekki er hægt að færa armbandið á milli einstaklinga. Þegar nemandinn hugar að "barninu" er armbandinu beint að skynjara á baki þess og með því les forritið að hugsað hafi verið um "barnið" og skráir það í minni. Með "barninu" fylgir magapoki, bleiur, peli og fatnaður. Nemandanum er síðan ætlað að hugsa um "barnið" í tvo sólarhringa eins og um raunverulegt barn sé að ræða. Almennt eru "börnin" stillt þannig að nemendur frá reynslu af öllum stigum. "Barnið" grætur, ropar, hjalar og það þarf að skipta á því. Á föstudagsmorgun er umönnunartímanum lokið og "börnunum" komið til skila í hendur félagsmálastjóra. Á þriðjudagsmorgun er prentuð út skýrsla af umhugsun hvers barns fyrir sig. Á skýrslunni sést síðan nákvæmlega hvernig hefur verið hugsað um "barnið" yfir helgina.