Fjórða upplýsingabréf sveitarstjóra

Fjórða upplýsingabréf sveitarstjóra

Vegna samkomubanns og takmarkana stjórnvalda.
Kæru íbúar Dalvíkurbyggðar.

Enn ein vinnuvikan að renna sitt skeið. Ekki er enn greint smit innan byggðarlagsins en fréttir úr öðrum byggðarlögum sýna hversu lítið þarf að gerast til að samfélagið sé meira og minna undir. Í litlum samfélögum með mikla nánd fer kórónuveiran hratt yfir. Því er áríðandi nú sem fyrr að sýna ítrustu gát í öllum samskiptum manna á milli.

Sveitarstjórn hélt aukafund á þriðjudag, í fyrsta skipti í fjarfundi. Á dagskrá var m.a. upplýsingar vegna kórónuveirufaraldurs, 7. liður á dagskrá. Þar voru gerðar nokkrar samþykktir vegna ríkjandi ástands en byggðaráð mun funda áfram um viðbragðsaðgerðir sveitarfélagsins. Sjá nánar hér: https://www.dalvikurbyggd.is/is/stjornsysla/stjornkerfi/fundargerdir/sveitarstjorn/1174

Núna er unnið að því að kortleggja og meta stöðu fyrirtækjanna okkar sem er misjöfn. Ástandið kemur illa niður á stöku stað, sérstaklega í ferðaþjónustunni. Það verður heilmikil áskorun víða að halda sjó en bæði Ríki og sveitarfélög leita allra leiða til að koma til móts við atvinnulífið.

Viðbragðsteymi sveitarfélagsins fundar reglulega og fer yfir áskoranir og hvernig þjónustan er dag frá degi aðlöguð að nýjum reglum. Stjórnendur og starfsfólk leggjast á eitt, fólk gengur í þau störf sem þarf að sinna, einbeitt og ákveðið í að láta allt ganga upp í settu regluverki sóttvarnalæknis og almannavarna. Þetta er sannarlega þakkarvert.

Einnig vil ég þakka íbúum fyrir þeirra þátttöku í hinum nýju, tímabundið skertu lífsháttum. Hegðun okkar allra leggur núna grunninn að velferð samfélagsins og það er sannarlega þakkarvert þegar allir róa í sömu átt.

Með bestu kveðjum.

Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri.