"Þetta á bara eftir að færast lengra og lengra ef við spyrnum ekki við fótum"

Séð inn Eyjafjörð. Mynd úr safni
Séð inn Eyjafjörð. Mynd úr safni
Sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar og formaður Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar var í viðtali hjá Jóni Þór Kristjánssyni, fréttamanni hjá RÚV, á dögunum varðandi umsögn um Grænbók, stefnu í málefnum sveitarfélaga. Meðfylgjandi er fréttin frá RÚV og hvetjum við alla til kynna sér hana. Einnig er hægt að hlusta á viðtalið hér á mín 4:41.

Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri
 
Spár gera ekki ráð fyrir viðsnúningi á byggðaþróun síðustu áratuga, heldur einskorðist fólksfjölgun við suðvesturhornið. Formaður Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar segir að róttækra aðgerða sé þörf. Störf án staðsetningar séu ekki nóg, flytja þurfi ríkisstofnanir markvisst út á land. 
 

Í nýlegri Grænbók, stefnu í málefnum sveitarfélaga, kemur fram að 64 prósent landsmanna búa á höfuðborgarsvæðinu og um 84 prósent á suðvesturhorninu, sem oft er talið sama atvinnusvæðið. Aðeins sjö prósent búa samtals á Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og Austurlandi, þar sem þó er þriðjungur sveitarfélaga. 

Íbúaþróun hefur verið mjög óhagstæð í fámennustu landshlutunum. Á tæpum þrjátíu árum hefur íbúum á Vestfjörðum fækkað um 28 prósent og á Norðurlandi vestra um 31 prósent. Á sama tíma hefur fólki fjölgað um 54 prósent á höfuðborgarsvæðinu og um 75 prósent á Suðurnesjum. 

Samkvæmt mannfjöldaspá Byggðastofnunar fækkar áfram á fámennari stöðum, en þrír af hverjum fjórum muni búa á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum 2030. Stjórn Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar hefur fjallað um þessi mál að undanförnu og lýst áhyggjum.  

Brýnt að spyrna við fótum

Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar sem er formaður atvinnuþróunarfélagsins, segir að staðan sé alvarleg. „Það er alltaf vont þegar rýrnar einhver landshluti. Við sjáum bara til dæmis á Vestfjörðum þegar Hornstrandirnar leggjast af, svo færist þetta bara nær og nær, Árneshreppur, Snæfjallaströnd, þetta á bara eftir að færast lengra og lengra ef við spyrnum ekki við fótum,“ segir Katrín.   

Segir störf ekki lengi án staðsetningar

Samkvæmt nýrri byggðaáætlun á að ráðast í 54 aðgerðir, meðal annars að fjölga störfum án staðsetningar á vegum ríkisins. Katrín segir margt gott að finna í byggðaáætlun, en störf án staðsetningar séu ekki nóg til að efla atvinnulíf. „Tilhneigingin er sú að innan tveggja, þriggja, fjögurra ára er starfið aftur komið í höfuðstöðvarnar, af því að þú ert svona eyland, þú ert einn að vinna einhvers staðar, ert fjarri þínu samstarfsfólki,“ segir Katrín. 

Ráðast þurfi í róttækari aðgerðir og hefur félagið hvatt til þess að stjórnvöld flytji ríkisstofnanir í heilu lagi og dreifi um landið. En slíkar aðgerðir hafa reynst umdeildar. „Þarna er bara mjög athyglisvert til dæmis að Fiskistofa er flutt í heilu lagi til Akureyrar og það verður allt svona þokkalega fokhelt í kringum þann flutning. Hafró er flutt til Hafnarfjarðar og Vegagerðin er að flytja í Garðabæ. Það heyrist ekki hósti né stuna yfir þessu,“ segir Katrín. 

Flutningur stofnana geti hins vegar skipt sköpum við að rétta af hnignandi byggðir. „Það er enginn hvati fyrir fólk sem er að koma úr námi til þess að snúa heim ef það er ekki fjölbreytni í atvinnulífinu,“ segir Katrín.