Evrópumót í sjóstangveiði á Dalvík 7.-15. maí

Tæplega 200 þátttakendur verða á Evrópumóti í sjóstangveiði sem fram fer á Dalvík dagana 7.-15. maí. Þetta er í annað sinn sem Evrópumót fer fram við Eyjafjörð en það var síðast árið 1974 og var þá einnig róið frá Dalvík. Mikil skipulagning er vegna mótsins, bátar koma frá útgerðarstöðunum við Eyjafjörð og er markmiðið að sem flestir verði eikarbátar þannig að þarna verði til einn stærsti eikarbátafloti á einum stað á seinni árum. Mótið hefst laugardaginn 8. maí með skráningu og fundarhöldum. Um kvöldið er stefnt að nokkurs konar sýningarútgáfu af fiskisúpukvöldi Fiskidagsins mikla. Mótið verður svo sett formlega á sunnudeginum 9. maí með skrúðgöngu og hátíðarmóttöku. Mótinu lýkur svo laugardaginn 15. maí með verðlaunaafhendingu og lokahófi í Víkurröst.

Fiskisúpukvöld.
Nú óskum við eftir nokkrum (4 – 5)aðilum/fjölskyldum til að taka þátt í Fiskisúpukvöldi laugardagskvöldið 8. mai frá kl 19.00 – 21.30. Þarna erum við að tala um rúmlega 200 manns sem verða á ferðinni sem er heldur minna umfang heldur en á Fiskisúpukvöldinu góða, þar sem að gestatalan 200 var sennilega lágmark hjá einum súpugestgjafa ? Þetta er skemmtilegt og gefandi verkefni og gaman að sýna erlendu gestunum okkar bestu hliðar. Áhugasömum er bent á að skrá sig sem fyrst á póstfangið: julli@julli.is eða hringið í Júlla í síma 897-9748. Nú er verið að setja saman pakka sem þátttakendur fá. Flott væri að sem flestir í bænum sem eru með seríurnar sínar klárar að kveikja á þeim.

Skrúðganga og flöggun.
Sunnudaginn. 9. maí kl 14.00 verður skrúðganga með öllum þjóðunum frá Víkurröst, gangan fer norður Skíða og Hafnarbraut og norður á bakkann fyrir neðan Kaupfélagið þar sem fánar verða dregnir að húni. Skólabörn munu aðstoða við gönguna og ganga með skilti með nöfnum þjóðanna. Frábært væri ef sem flestir bæjarbúar myndu raða sér meðfram götunni á þessari leið og veifa íslenskum fánum og taka þátt með bros á vör. Þennan dag væri líka frábært að flagga íslenska fánanum á öllum stöngum í byggðarlaginu.

Dagskrá
Fyrir þá sem vilja fylgjast með mótinu og almennri dagskrá í kringum mótið þá mun dagskrá og fréttir koma á ww.dalvik.is er nær dregur og einnig bendum við á www.efsa.is