Dalvíkurskóli hleypur til styrktar Unicef

Dalvíkurskóli hleypur til styrktar Unicef

Föstudaginn 13. maí hlupu krakkarnir í Dalvíkurskóla áheitahlaup til styrktar Unicef, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna. Þetta er í fjórða sinn sem Dalvíkurskóli er þátttakandi í þessu átaki og hefur árangurinn verið með því sem best gerist á landinu, en samtals höfum við skilað inn til samtakanna um 1,3 milljónum þessi þrjú ár. 

Söfnunin fór þannig fram að foreldrar og vinir hétu á börnin ákveðinni upphæð fyrir hvern hring sem þau hlupu á íþróttavellinum á einum klukkutíma, þau fengu límmiða í svokallað apakver fyrir hvern hring sem þau hlupu. Þau fóru síðan heim með kverið til sönnunar fyrir því hvað þau hlupu marga hringi og næst er svo að innheimta áheitin og skila til kennara. Sem dæmi um dugnað nemenda má nefna að krakkarnir í 1. bekk hlupu að meðaltali 12 hringi, eða tæpa fimm kílómetra á þessum klukkutíma, og sumir eldri krakkarnir hlupu rúma 12 kílómetra!

Krakkarnir fá góða fræðslu um starfsemi UNICEF og eru meðvituð um í hvað peningarnir fara. Með þessu átaki erum við að slá tvær flugur í einu höggi; annarsvegar að fræða börnin um kjör barna í þróunarlöndunum og fá þau til að hugsa til þeirra sem minna mega sín, og í leiðinni að hvetja þau til hollrar hreyfingar.

Við viljum þakka foreldrum og þeim sem heita á krakkana kærlega fyrir að taka svona vel í þetta átak okkar, án þeirra áhuga og þátttöku væri þetta ekki mögulegt.