Dalvíkurbyggð með bás á sýningin Norðurland 2005

Dalvíkurbyggð með bás á sýningin Norðurland 2005

Sýningin Norðurland 2005 verður haldin í Íþróttahöllinni á Akureyri um komandi hvítasunnuhelgi, 13.-15. maí. Sýningunni er ætlað að endurspegla fjölbreytileika í norðlensku atvinnulífi og þjónustu um leið og hún er kjörinn vettvangur til kynningar á þeim viðburðum sem í boði eru á Norðurlandi á komandi sumri, sumarvörum og -þjónustu. Markmiðið er að gestir á sýningunni fái á einum stað þverskurð atvinnulífs, þjónustu og mannlífs á Norðurlandi og fræðist um fjölbreytni Norðurlands hvað varðar búsetu og atvinnutækifæri. Um framkvæmd sýningarinnar sjá kynningarfyrirtækið Athygli á Akureyri og handknattleiksdeild Íþróttafélagsins Þórs á Akureyri. Sýnendur verða með bása bæði úti og inni en einnig verða skemmtiatriði á sviði innandyra.

Langt er um liðið síðan haldin hefur verið sýning af þessum toga á Norðurlandi og löngu tímabært að undirstrikaður sé á einum stað sá kraftur og fjölbreytileiki sem býr nú um stundir í norðlensku atvinnu- og mannlífi.

Dalvíkurbyggð verður með bás á þessari sýningu þar sem lögð verður áhersla á að kynna sveitarfélagið sem ákjósanlega búsetukost. Ýmislegt skemmtilegt verður á básnum og mun gestum gefast kostur á að skoða heimasíðu Dalvíkurbyggðar, kynna sér korta - og þjónustkerfi sveitarfélagsins og margt fleira. Einnig verður spurningaleikur í gangi þar sem vegleg verðlaun verða dregin út á laugardeginum og sunnudeginum.

Opnun sýningarinn er á föstudaginn 13. maí kl. 16:00 og verður sýningin opin til kl. 20:00 þann dag. Á laugardeginum verður opið frá kl. 11:00-18:00 og á sunnudeginum frá kl. 12:00-17:00. Miðaverð inná sýninguna er kr. 500.- en ókeypis er fyrir 12 ára og yngri.

Þetta er kjörið tækifæri til að kynna sér það sem er í boði á Norðurlandi og því eru allir hvattir til að gera sér ferð og skoða það sem um er að vera á sýningunni.