Dalvíkurbyggð í 4. sæti af 38

Tímaritið Vísbending, vikurit um viðskipti og efnahagsmál, birtir á hverju ári lista yfir gengi og stöðu sveitarfélaganna í landinu. Í fyrra var listinn birtur undir yfirskriftinni: Draumasveitarfélagið. Þá var Dalvíkurbyggð í 6. sæti. Tímaritið hefur nú birt nýjan lista og er Dalvíkurbyggð komin í 4. sæti, af 38 og hefur því hækkað um tvö sæti á milli ára.

Tímaritið byggir mat sitt á tölum úr árbók sveitarfélaga. Einkum er litið á skattheimtu sveitarfélagsins, afkomu sem hlutfall af tekjum, hlutfall skulda af tekjum, breytingar á fjölda íbúa og veltufjárhlutfall. Einnig er litið til ábyrgða vegna einkaframkvæmda.

Það vekur athygli að ef skoðuð eru 10 efstu sveitarfélögin í ár þá er Dalvíkurbyggð eitt fárra sem hefur oftast verið í 10 efstu sætunum í undanförnum mælingum. Fyrir utan Dalvíkurbyggð er um að ræða Garðabæ og Seltjarnarnes.