Dalvíkurbyggð er sterkt samfélag sem við getum verið stolt af.

Ræða Svanfríðar Jónasdóttur, bæjarstjóra á 17. júní

17. júní er gjarnan notaður til að líta yfir farinn veg og til að spyrja hvort við höfum gengið til góðs. Það er hollt að gera reglulega og þjóðhátíðardagurinn er góður dagur til þess. Við reynum þá að átta okkur á hvar við erum stödd; lítum til fortíðar, því af henni má læra, og reynum síðan að átta okkur á siglingunni framundan. Það er ljóst að hún verður í krappara lagi fyrir þjóðina, ágjöfin hefur verið mikil og mörgum finnst sem þeir sjái engan veginn til lands. Margir eru uggandi vegna eigin aðstæðna eða vandamanna, og finnst að sú mikla óvissa sem ríkir á ýmsum sviðum í nútíð og framtíð sé næsta óbærileg. Það er vond tilfinning og við verðum að vona að svör fáist jafnt og þétt við þeim stóru spurninum sem á okkur hvíla; að úr málum greiðist og að okkur takist með nýjum lausnum að vinna okkur út úr vandanum.

Íslensk þjóð hefur oft staðið frami fyrir miklum erfiðleikum, fyrrum fyrst og fremst vegna veðurfars og náttúruhamfara en á síðari tímum einnig vegna erfiðra ytri skilyrða og viðskiptakjara með okkar helstu afurðir. Ísland hefur í grófum dráttum fylgt alþjóðlegum sveiflum efnahaglífsins en dýfurnar verið krappari vegna smæðar hagkerfis okkar. En alltaf birtir upp um síðir og við höfum jafnan fundið lausnir sem hafa fleytt okkur í gegnum erfiða tíma og áfram inn í ný skeið grósku og vaxtar. Svo trúi ég að verði einnig nú.

Mitt hlutverk, og okkar sem höfum valist til trúnaðarstarfa fyrir sveitarfélagið, er að vinna að því öllum árum að það komi sem best út úr þessari miklu lægð. Ég ætla því hér í dag, rétt eins og ég gerði fyrir ári síðan, að líta sérstaklega til þess hvernig staða okkar er hér í Dalvíkurbyggð og hvernig horfurnar eru, eða virðast vera. Á 17. júní í fyrra nefndi ég m.a. verðbólgu og ofurvexti. Við vorum nefnilega komin inn í býsna erfitt tímabil áður en bankarnir hrundu í október. Gengið féll jú hraustlega þegar um páskana í fyrra og kynti þá þegar undir verðbólgu. Við hjá sveitarfélaginu horfðum á útgjöldin vaxa á meðan tekjurnar stóðu í stað. Þá horfðum við líka framaní áframhaldandi niðurskurð í þorski. Brugðist var við með þeim tækjum sem við höfðum yfir að ráða, m.a. niðurskurði á framkvæmdaáætlun. Og þorskkvótinn var svo aukinn sem skiptir okkur hér miklu varðandi atvinnustigið.

En fyrir ári dró ég líka upp mynd af sterku samfélagi sem við gætum verið stolt af á 10 ára afmæli Dalvíkurbyggðar. Og ég ætla að halda því fram að þrátt fyrir ýmis áföll þá höfum við haldið þeirri stöðu og að við búum við þokkalegt gengi. Þetta er auðvitað afstætt því slíkt mat ræðst gjarnan af þeim viðmiðum sem notuð eru. Fjölmiðlar greina þessa dagana frá erfiðri stöðu sveitarfélaga, og víst er hún misjöfn. Ársreikningur Dalvíkurbyggðar fyrir árið 2008 sem afgreiddur var í apríl sýnir vel viðunandi stöðu þar sem afgangur er af rekstri sveitarfélagsins.Um þessar mundir erum við svo að ljúka vandaðri endurskoðun á fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir yfirstandandi ár. Farið hefur verið í saumana á flestum liðum og leiða leitað til að gera enn betur, til að hagræða og spara.
Ég hef verið spurð af hverju við þurfum að vera að skera niður þegar staða sveitarfélagsins virðist svo sterk. Því er til að svara að til að rekstur sveitarfélagsins verði áfram traustur, svo við getum bæði staðið við okkar skuldbindingar og mætt nýjum verkefnum, þarf að vaka yfir honum, og það ekki síst á tímum eins og nú. Viðleitni okkar snýst fyrst og fremst um það að takast á við þann vöxt í útgjöldum sem hlýst af aukinni verðbólgu og að sporna við nánast sjálfvirkum vexti í velferðarútgjöldum. Verkefni sveitarfélaga eru fyrst og fremst á sviði velferðarmála, í þjónustu við fólk og fjölskyldur. Þar er því auðvelt að bæta við þegar vel gengur. En þegar harðnar á dalnum þarf líka að gaumgæfa hvar við getum spornað við eða dregið úr og helst gert betur fyrir sama fé. Það er m.a. verkefnið núna.

Hér er gott atvinnustig, hér vantar frekar fólk í vinnu en hitt. Samdráttur er hinsvegar mikill í tekjum ríkissjóðs og sá þriðjungur tekna Dalvíkurbyggðar sem kemur úr þeirri áttinni, í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, mun því óhjákvæmilega dragast saman og tekjur okkar þar með minnka, bæði í ár og enn meira á næsta ári. Aðalatriðið er að atvinnan haldist og þar mun sveitafélagið leggja sitt af mörkum eftir þeim leiðum sem færar eru. Framkvæmdir í ár eru miklar og eiga sinn þátt í góðri stöðu. En það eru þó alltaf þekking og kraftur íbúanna sem úrslitum ráða.

Það er áhugavert að horfa til sögunnar og sjá hvernig íbúar þessa byggðarlags hafa á hverjum tíma sýnt framfarahug og hvergi látið bugast þó ytri erfiðleikar hafi verið miklir.
Í ár eru 100 ár frá því skipuleg barnafræðsla hófst hér í byggðarlaginu. Vissulega höfðu verið gerðar nokkrar tilraunir áður með skipulega fræðslu en hún verið slitrótt. Skólinn sem fór af stað fyrir eitt hundrað árum var upphaflega að mestu farskóli og kennt á ýmsum bæjum í dölunum en í leiguhúsnæði á Dalvík þar sem þéttbýli var að myndast.
Og í ár er líka 100 ára afmæli Ungmennafélags Svarfdæla. Ungmennafélagið Reynir varð 100 ára fyrir tveimur árum. Í ár hefur þegar verið haldið uppá 75 ára afmæli kvennadeildar Slysavarnarfélagsins. Í ár er líka 80 ára afmæli sundskálans. Það er vert að minnast þess að í kreppunni sem þá var byggði fólkið hér ekki bara sundskálann heldur líka UNGÓ, sem verður 80 ára á næsta ári. Þessar tvær byggingar, þessi stórvirki á þeirra tíma mælikvarða voru byggð og tekin í notkun á árunum 1929 og 1930.

Þessi félög sem ég nefndi, og fleiri félög, sem og þau hús sem hér hafa verið nefnd skiptu máli þá. Þau sýndu hvað í fólki bjó og þau voru farvegur góðra verka og ýmissa afreka. Það skiptir líka máli í dag að hafa öflug félög af ýmsum toga sem auðga mannlífið og auka þannig lífsgæði okkar. Félögin eigum við, ung og gömul, og þar er sko engin kreppa. Þau og sú starfsemi sem þau standa fyrir þurfa sína umgjörð, nú eins og þá. Þess vegna er það mikilvægt fyrir byggðarlagið að hér rís nú menningarhús þar sem starfsemi hefst í byrjun ágúst, og að hér rís nú íþróttamiðstöð sem verður tekin í notkun á næsta ári.

Það er gott að líta til sögunnar, finna hliðstæður og sjá hvernig sótt hefur verið fram, hvernig fólk sem bjó við lítil efni vann stórvirki með samstöðu sinni og lét ekki tímabundna erfiðleika draga úr sér kraftinn. Það þarf kraft og trú á byggðarlagið og framtíð þess til að halda úti öflugu atvinnulífi og íþrótta- og menningarstarfi eins og gert er hér. Byggðarlag með kraftmikla íbúa, sem hafa kjark og þekkingu og standa saman, nær árangri, þó yrti aðstæður séu ekki sem ákjósanlegastar. Ég vona að það einkenni okkur áfram, þá mun okkur vel farnast.

Ég óska ykkur gleðilegs þjóðhátíðardags og gjöfuls sumars.