Dagur íslenskrar tungu í dag

Dagur íslenskrar tungu er í dag, 16. nóvember á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar. Dagurinn er helgaður íslensku máli og athygli þjóðarinnar beint að stöðu tungunnar, gildi hennar fyrir þjóðarvitund og alla menningu.

Skólar Dalvíkurbyggðar heiðra daginn með sérstakri áherslu á íslenskt mál og tónlist í fjölbreyttri dagskrá sinni. Í grunnskólunum landsins hefst Stóra upplestrarkeppnin formlega hjá 7. bekkjar nemendum með æfingum á flutningi bundins og óbundins máls. Þær æfingar standa yfir fram í mars þegar aðalkeppnin milli skólanna fer fram á landsvísu.


Ríkisstjórn Íslands hefur frá árinu 1996 veitt sérstaka viðurkenningu, kennda við Jónas Hallgrímsson fyrir störf í þágu íslenskunnar og Íslandsbanki gefið verðlaunaféð. Dagur íslenskrar tungu hefur verið haldinn hátíðlegur með svipuðu sniði undanfarin ár og sífellt fleiri aðilar taka virkan þátt í honum með ýmsu móti.


Íslendingar eru hvattir til að draga íslenska fánann að húni á Degi íslenskrar tungu.