TAKMARKANIR á starfssemi stofnana Dalvíkurbyggðar vegna COVID-19

TAKMARKANIR á starfssemi stofnana Dalvíkurbyggðar vegna COVID-19

Hér munum við uppfæra allar upplýsingar tengdar Covid-19 veirunni og allar takmarkanir sem kunna að verða á starfssemi stofnana Dalvíkurbyggðar vegna hennar. Hér má einnig finna viðbragðsáætlun Dalvíkurbyggðar.

Í byrjun má hér finna leiðbeiningar vegna COVID-19 og mjög mikilvægt að halda áfram að tileinka sér þær. Þá hefur embætti landlæknis, Ríkislögreglustjóri og Almannavarnardeild opnað nýjan vef https://www.covid.is// - vegna Covid-19 kórónuveirunnar þar sem finna má góð ráð og allar tölulegar upplýsingar.

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að virkja heimildir sóttvarnalaga til að takmarka samkomur tímabundið í fjórar vikur frá og með næsta mánudegi, 15. mars, til að hægja á útbreiðslu COVID-19. Þar er átt við viðburði þar sem fleiri en hundrað manns koma saman og ná takmarkanirnar til landsins alls. Auk þess þarf að tryggja að nánd milli manna verði yfir tveimur metrum á öllum viðburðum. Þetta kom fram á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar.

Í leik- og grunnskólum verður sett á hámark á fjölda nemenda í kennslu í sömu stofu og tryggt að nemendur séu í sem minnstum hópum og aðskilin eins og mögulegt er. 

Dalvíkurskóli
Nemendur mæta ýmist kl. 8:00 eða 8:20 og fara heim kl. 11:40 eða 12:00. Boðið verður upp á létta hádegishressingu inn í stofum hvers og eins árgangs. Skóladagur nemenda verður með breyttu sniði en einhver hreyfing og útivist verður á hverjum degi. Mikilvægt er að allir nemendur skólans komi klæddir til útvistar alla daga. Skólinn endar fyrr en vanalega til að mæta þeim kröfum sem settar eru um þrif.
Sjá nánari upplýsingar hér.

Frístund verður með breyttu sniði. Börn sem eru í Frístund byrja kl. 11:40 eða 12:00 eða um leið og skóladegi lýkur. Frístund lokar kl. 15:00 til þess að hægt verði að þrífa líkt og fram kemur í tilmælum almannavarna. Þeir foreldrar sem hafa tök á eru beðnir um að senda börnin ekki í Frístund á meðan skólastarfið er með breyttu sniði vegna COVID-19. Ekki verður boðið upp á hressingu í Frístund og því mikilvægt að nemendur komi með nesti að heiman en boðið verður upp á drykk í skólanum.

Krílakot
Leikskólinn verður opinn frá 7:45-15.30. Börn mæta í leikskólann annan hvern dag skv. hópaskiptingu sem send var í upplýsingapósti til foreldra. Skólinn endar fyrr en vanalega til að mæta þeim kröfum sem settar eru um þrif. Þá eru einnig settar hertari reglur varðandu komu og heimferð barna og innkomu foreldra í skólann sem finna má í upplýsingapósti frá aðstoðarleikskólastjóra.

Íþróttamiðstöðin 
Vegna takmarkana með samkomubanni verður íþróttamiðstöðin á Dalvík lokuð um óákveðin tíma. Á það við um alla starfsemi, líka sundlaugina. Lokunin tekur gildi nú þegar (ath. ekki opið mánudaginn 23. mars)

Tónlistarskólinn fellir niður vegna samkomubanns alla tónleika, tónfundi, hóptíma, tónfræði, samspil, frístund og hljómsveitarstarf um óákveðinn tíma frá mánudeginum 16. mars, þangað til annað verður ákveðið. Einkakennsla verður samkvæmt stundaskrá og breytist ekki hjá nemendum skólans í Dalvíkurbyggð, en í Fjallabyggð verða kennarar með kennslu þar sem nemendur eru staðsettir. Kennsla breytist hjá nokkrum nemendum til að minnka að kennarar skólans séu að fara á margar starfsstöðvar í viku.

Félagsmiðstöðin Týr
Lokuð á tímabili samkomubanns.

Berg Menningarhús og Bókasafnið verður frá og með þriðjudeginum 24. mars verður lokað fyrir gesti og óvíst hvenær opnar aftur. Við hvetjum ykkur til að fylgjast með tilkynningum því allar breytingar verða kynntar um leið og þær berast. Áfram verður boðið upp á bókaskutl – Ath. að það gæti, eins og allt annað, breyst með litlum fyrirvara og við gerum bara eins vel og við getum á hverjum tíma fyrir sig.

Hægt verður að panta bækur í síma: 460-4930, í gegnum netfangið utlan@dalvikurbyggd.is eða í gegnum skilaboð á facebook (hér). Í pöntun þarf að koma fram kennitala og heimilisfang sem bókin á að sendast á. Best er að fólk sé búið að kanna hvort bókin sé í hillu áður en það pantar – það er gert á leitir.is. Allar bækur eru meðhöndlaðar með hönskum, þrifnar og sótthreinsaðar áður en þær fara í útlán. Bækur verða keyrðar út á þriðjudögum og fimmtudögum – settar í bréfalúgu eða hengdar á hurðahún. Við biðjum alla sem panta bækur að virða 2 metra regluna þegar starfsmaður kemur með bækur og ekki sækja bækurnar fyrr en starfsmaðurinn er farinn aftur – þetta verður einungis svokölluð “heimsendingarþjónusta”, engin samskipti innifalin. Við viljum t.d. ekki fá bækur til að skila - á þessu tímabili verður ekki tekið við bókum úr útláni.

Dalbær - Dvalarheimili aldraðra
Tekin hefur verið sú  ákvörðun að loka Dalbæ fyrir heimsóknum ættingja og annarra gesta frá og með 7. mars þar til annað verður formlega tilkynnt. Er þetta gert að höfðu samráði við sóttvarnayfirvöld eftir að neyðarstigi almannavarna var lýst yfir vegna COVID-19 veirunnar.
Íbúar heimilisins eru  flestir aldraðir og/eða með undirliggjandi sjúkdóma og því í sérstökum áhættuhópi að veikjast alvarlega af kórónaveirunni.
Allra leiða er leitað til að draga úr hættu á að íbúar  veikist og er lokunin liður í því.
Við sérstakar aðstæður má leita undanþágu hjá deildarstjóra eða hjúkrunarframkvæmdastjóra
Við bendum  fólki einnig á að kynna sér upplýsingar og leiðbeiningar á vef Landlæknisembættisins www.landlaeknir.is um stöðu mála, en þær geta breyst frá degi til dags.
Ef frekari upplýsinga er óskað er hægt að hafa samband við hjúkrunarframkvæmdastjóra, Elísu Rán Ingvarsdóttur, í síma 466-1378/847-0426 eða á elisa@dalbaer.is

Félagsstarf aldraðra og öryrkja
Frá og með 9. mars, verður lokað í félagstarfi aldraðra og öryrkja á Dalbæ.  Sú ákvörðun að loka er tekin í samráði við sóttvarnayfirvöld og er liður í því að hefta útbreiðslu veirunnar.

Heimilisþjónusta
Haft verður samband við alla sem njóta heimilisþjónustu og aðilar upplýstir um fyrirkomulag þjónustunnar.

Búsetuþjónusta fatlaðra
Búsetuþjónusta fatlaðra verður órofin.

Þjónustuver Skrifstofa Dalvíkurbyggðar
Þjónustuver Dalvíkurbyggðar verður lokað í 4 vikur frá og með 16. mars en lágmarksþjónusta verður veitt.  Íbúar og aðrir viðskiptavinir sem eiga erindi í þjónustuverið eru hvattir til að hringja í síma 460-4900 frá kl. 10:00-15:00 eða senda tölvupóst á dalvikurbyggd@dalvikurbyggd.is. Starfsfólk ráðhússins mun áfram leggja áherslu á að veita góða þjónustu en við biðjum viðskiptavini um að sýna þolinmæði í ljósi aukins álags. Vakin er athygli á að netfangaskrá starfsmanna er á heimasíðu Dalvíkurbyggðar.

Pósthúsið á Dalvík verður opið á milli kl. 10.00-14.30 á meðan þetta ástand varir.

Skíðasvæðinu hefur verið lokað og allar íþróttaæfingar hafa verið felldar niður í kjölfar tilmæla frá ÍSÍ.

Ef grunur vaknar um veirusmit:
Vegna mikils álags á símanúmerið 1700 þá vilja starfsmenn HSN vekja athygli á að fólk hefur tvo möguleika ef það vaknar grunur um veirusmit:

1.            Hringja í símanúmerið 1700, sem er opið allan sólarhringinn

2.            Hringja í 432-4400 (HSN Dalvík) á milli kl. 8 og 16 virka daga.

Heilsugæslustöðin á Dalvík hefur undirbúið sig vegna þessa.
Við viljum einnig ítreka að fólk sem hefur grun um veirusmit mæti EKKI á heilsugæslustöðina.

Bent er á að Sóttvarnalæknir beinir því sérstaklega til þeirra sem teljast til viðkvæmra hópa, einkum þá sem eru með undirliggjandi sjúkdóma og eldri einstaklinga, að huga vel að hreinlætisaðgerðum og forðast mannamót að óþörfu. Allar helstu upplýsingar um COVID-19 er að finna á vef Embætti landlæknis hér https://www.landlaeknir.is/ og viljum við benda fólki á að kynna sér upplýsingar og leiðbeiningar um stöðu mála, en þær geta breyst frá degi til dags.