Breytingar í afgreiðslu á bæjarskrifstofu

 

Eins og þeir viðskiptavinir bæjarskrifstofu Dalvíkurbyggðar sem hafa heimsótt skrifstofuna síðustu vikur hafa orðið varir við þá er búið að gera mjög sýnilega breytingu í afgreiðslunni á 1. hæð.

Stóri bekkurinn hefur nú verið fjarlægður en hann hefur staðið fastur fyrir síðast liðin 25 ár. Á haustdögum voru keypt tvö ný skrifborð ásamt skápi sem eru vinnustöðvar ritara og bæjargjaldkera. Afgreiðslan er nú orðin miklu opnari og vonandi er aðkoma fyrir viðskiptavini skemmtilegri en áður var. 

Ofangreind breyting gerði það m.a. að verkum að hægt var að flytja jólaþorpið á sýnilegri stað og hefur þess orðið vart af starfsmönnum bæjarskrifstofu að jólaþorpið sem og ofangreindar breytingar hafa almennt mælst vel fyrir af íbúum og viðskiptavinum sveitarfélagsins.

Þessi litla breyting í húsakynnum bæjarskrifstofu er einn liðurinn í hugmyndum á breytingum á skrifstofurýminu og þróun á hugmyndum á þjónustuveri þar sem áform er uppi um að þjónustuverið verði í auknum mæli miðpunktur fyrir upplýsingagjöf og þjónustu við íbúa og viðskiptavini Dalvíkurbyggðar.