Björgvin Björgvinsson íþróttamaður Dalvíkurbyggðar

Á fundi íþrótta- og æskulýðsráðs Dalvíkurbyggðar þann 30. desember 2009 var lýst kjöri á íþróttamanni Dalvíkurbyggðar 2009.

Eftirtalin voru kjörin íþróttamenn sinnar íþróttagreinar:

Skíðamaður Dalvíkurbyggðar 2009, Björgvin Björgvinsson
Blakmaður Dalvíkurbyggðar 2009, Dóróþea Reimarsdóttir
Frjálsíþróttamaður Dalvíkurbyggðar 2009, Harpa Lind Konráðsdóttir
Körfuknattleiksmaður Dalvíkurbyggðar 2009, Jónas Pétursson
Golfmaður Dalvíkurbyggðar 2009, Sigurður Ingvi Rögnvaldsson
Sundmaður Dalvíkurbyggðar 2009, Eva Hrönn Arnardóttir
Tilnefnd til íþróttamanns Dalvíkurbyggðar fyrir frjálsar íþróttir 2009, Stefanía Aradóttir
Hestaíþróttamaður Dalvíkurbyggðar 2009, Stefán Friðgeirsson
Knattspyrnumaður Dalvíkurbyggðar 2009, Viktor Jónasson

Allir þessir íþróttamenn hlutu blómvönd og verðlaunagrip sem viðurkenningu.

Íþróttaður Dalvíkurbyggðar árið 2009 er Björgvin Björgvinsson en þetta er tíunda árið í röð sem hann hlýtur þennan titil. Björgvin er, eins og undanfarin ár, fastamaður í landsliði Skíðasambands Íslands og er án efa besti skíðamaður landsins í dag. Það hefur hann sýnt með frammistöðu sinni í skíðabrekkunum á liðnum árum. Hann er mikill keppnismaður og gefur allt sem hann á í íþrótt sína og hefur síðustu ár náð frábærum árangri í skíðabrekkunum. Björgvin æfir allt árið því hann tekst á við mörg stór verkefni á hverju ári, svo sem Evrópubikar, Heimsbikar og nú stefnir hann á Ólympíuleikana sem haldnir verða í Vankuver í Kanada í febrúar 2010. Árangur Björgvins á árinu var mjög góður en hann varð meðal annars þrefaldur Íslandsmeistari á skíðamóti Íslands sem fór fram í Hlíðarfjalli. Þá vann hann Eysteinsbikarinn í fjórða sinn, bikarinn er veittur fyrir besta samanlagðan árangur á skíðamótum sem íslenskir karlkyns skíðamenn taka þátt í ár hvert. Björgvin er á B styrk hjá Íþrótta og Ólympíusambandinu sem segir allt um getu hans í íþróttinni.

Besti árangur Björgvins á mótum erlendis er á árinu 2009 er þessi:
25. sæti í svigi á Heimsbikarmóti í Zagreb í Króatíu sem er besti árangur íslendings á Heimsbikarmóti síðan árið 2000.
19. sæti á svigmóti í Evrópubikar í Crans Montana
Þá náði Björgvin einnig mjög góðum árangri á fjölmörgum FIS og Evrópubikarmótum síðasta vetur.

Björgvin bætti stöðu sína á heimslistanum í svigi verulega á árinu og er í dag númer 75 með 11.30 FIS stig.


Að auki voru veittar viðurkenningar fyrir góðan árangur á árinu, sérstakar viðurkenningar hlutu eftirtalin fyrir að hafa sett íslandsmet eða orðið íslandsmeistari á árinu:


Stefanía Aradóttir, íslandsmet í sleggjukasti 2009

Júlía Ósk Júlíusdóttir, íslandsmeistari í 4x100m boðhlaupi 13 ára

Ólöf Rún Júlíusdóttir, íslandsmeistari í 4x100m boðhlaupi 13 ára

Sigfríð Valdimarsdóttir, íslandsmeistari í sjóstangveiði 2009 í 12. sinn

Björgvin Björgvinsson, fjórfaldur íslandsmeistari á skíðum 2009

Sigurður Ingvi Rögnvaldsson, Íslandsmeistari í höggleik í golfi 15/16 ára 2009

Maciej Szymkoviak, tvöfaldur íslandsmeistari í kúluvarpi 13 ára 2009.

Agnar Snorri Stefánsson, íslandsmeistari í 100m skeiði 2009

Unnar Már Sveinbjarnarson, íslandsmeistari í samhliðasvigi 15/16 ára 2009

Jakob Helgi Bjarnason, íslandsmeistari í stórsvigi 13 ára á UMM 2009

Atli Viðar Björnsson fékk blómvönd en hann hefur borið uppruna sínum gott vitni með því að verða íslandsmeistari í knattspyrnu með FH fimm sinnum síðustu sex ár.