Bjórböð - einstök nýjung í ferðaþjónustu

Bjórböð - einstök nýjung í ferðaþjónustu

Bjórböðin á Árskógströnd er nýjung í ferðaþjónustu í Dalvíkurbyggð en fyrirtækið er rekið samhliða, og undir merki, Bruggsmiðjunnar Kalda. Þetta er fyrsta bjórbaðið á Íslandi en fyrirmyndin kemur frá Tékklandi.

Á staðnum eru 7 tveggja manna böð í einkaklefum auk þess sem tveir pottar og gufubað eru á fallegu útisvæði með útsýni út Eyjafjörðinn.

Blandan í bjórböðunum er ekki drykkjarhæf en í henni er vatn, ungur bjór, ger og humlar. Meðferðin hefur öflug áhrif á líkama og húð og er við allra hæfi. Þeir gestir sem eru 20 ára og eldri geta svo bragðað á bjór á meðan þeir hvíla í baðinu en bjórdæla er staðsett við hvert kar. Hvert bað tekur 25 mín en eftir baðið færa gestir sig upp á efri hæð hússins þar sem við tekur 25 mín slökun í sérstöku slökunarherbergi.

Auk þess að bjóða upp á þessa einstöku meðferð er rekinn veitingastaður á staðnum þar sem boðið upp á létta rétti og bjórtengdan mat.

Húsakynni eru öll hin glæsilegustu og virkilegur metnaður hefur verið lagður í að búa til fallegt og notalegt umhverfi fyrir gesti, hvort sem þeir koma til að njóta hinna einstöku bjórbaða eða bara til að fá sér að borða í fallegu umhverfi. Andrúmsloftið er afslappað og þægilegt og býður gesti velkomna.

Til að stuðla að fullkomnari nýtingu afurðanna er affall frá verksmiðjunni notað að hluta til í baðblönduna virkilega gaman að sjá hvernig eigendur hafa nýtt sér enn frekar framleiðslu sína til að búa til og skapa þessa vel heppnuðu nýjung í ferðaþjónustu á svæðinu. 

Dæmi um baðkar sem gestir geta nýtt sér í Bjórböðunum

Útsvæðið við Bjórböðin með útsýni út Eyjafjörð