Ásbjörn Björgvinsson ráðinn framkvæmdastjóri Markaðsskrifstofu ferðamála á Norðurlandi

Ásbjörn Björgvinsson, forstöðumaður Hvalasafnsins á Húsavík, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Markaðsskrifstofu ferðamála á Norðurlandi. Hann tekur við starfinu þann 15. ágúst næstkomandi af Kjartani Lárussyni, sem veitt hefur skrifstofunni forstöðu frá stofnun hennar. Ásbjörn hefur um árabil unnið ötullega að ferðamálum á Húsavík og verið einn af framámönnum í norðlenskri ferðaþjónustu.

Sem slíkur átti hann mikinn þátt í stofnun Markaðsskrifstofu ferðamála á Norðurlandi á sínum tíma, auk þess að vera stjórnarformaður hennar fyrstu þrjú árin. Ásbjörn hefur veitt Hvalasafninu á Húsavík forstöðu frá stofnun árið 1997. Hann hefur gegnt ýmsum félagsstörfum innan ferðaþjónustunnar og í opinberri stjórnsýslu. Var meðal annars í ráðgjafahópi um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs, ráðgjafahópi um Jökulsárþjóðgarð, stjórnarmaður í Ferðamálasamtökum Íslands og formaður umhverfisnefndar Samtaka ferðaþjónustunnar.

„Ég hlakka mjög til að takast á við þennan nýja starfsvettvang og þá áskorun sem starfinu fylgir. Markaðsskrifstofuna og starf hennar þekki ég vel allt frá upphafi og veit að þar hefur verið unnið gott starf fyrir norðlenska ferðaþjónustu undir stjórn Kjartans Lárussonar. Mín ætlun er að halda áfram á sömu braut, enda er meðbyr með starfinu sem best sést á þátttöku sveitarfélaganna á Norðurlandi í verkefninu. Markaðs-skrifstofan hefur að mínu mati fyrir löngu sannað mikilvægi sitt og tilgang, verkefnin eru næg og við vitum að þetta samstarf í ferðaþjónustu á Norðurlandi hefur orðið fyrirmynd annarra í svipuðum verkefnum á landinu," segir Ásbjörn.

Markaðsskrifstofa ferðamála á Norðurlandi (MFN) hefur starfað frá árinu 2003 en skrifstofan er samstarfsvettvangur Norðurlands í ferðamálum og er í eigu ferðamálasamtaka Norðurlands eystra og Norðurlands vestra. Helsta hlutverk MFN er að samræma markaðs- og kynningarmál norðlenskrar ferðaþjónustu gagnvart innlendum og erlendum ferðamönnum og hafa starfsmenn skrifstofunnar mikla reynslu og þekkingu á sviði markaðs- og kynningarmála.

Stjórn Markaðsskrifstofu ferðamála á Norðurlandi þakkar Kjartani Lárussyni kraftmikið uppbyggingarstarf frá stofnun MFN um leið og Ásbjörn er boðinn velkominn til starfa.