Aftur kemur vor í Dalvíkurbyggð

Aftur kemur vor í Dalvíkurbyggð

Við á Umhverfis og tæknisviði þökkum Forstöðumanni safna og Menningarhússins Bergs fyrir áskorunina!

Við viljum byrja á að færa íbúum Dalvíkurbyggðar miklar þakkir fyrir þolinmæði og góða samstöðu á þessum erfiða vetri sem nú senn líður á braut og einnig færum við öllum samstarfsaðilum stórum sem smáum okkar bestu þakkir.

Það er gaman að segja frá því að þessa dagana erum við að koma upp tveimur flottum bekkjum austur á sandi þar sem góð aðstaða verður til að tilla sér niður og njóta umhverfisins sem er einstaklega fallegt og kraftmikið í þessari einstöku útivistarparadís sem að við eigum. Bekkirnir eru steyptir og því mjög endingargóðir.

Upp er kominn hugmynd að bjóða fólki að kaupa samskonar bekki til minningar um nákominn og bekkurinn yrði þá merktur viðkomandi. Þetta tíðkast víða erlendis, hefur verið vinsælt og þá yrði búið til kort þar sem allir bekkirnir væru merktir inná og fjarlægðin á milli þeirra.

Við munum leggja mikla áherslu á, um leið og vorar og tækifæri býðst til að gera götur og annað umhverfi, sem fyrst eins snyrtilegt og mögulegt er  til að við og okkar gestir finnum fljótt fyrir vorinu. Að auki þar sem að við höfum tekið yfir götulýsingar í sveitarfélaginu þá verði ljósastaurarnir sem eru farnir að láta á sjá lagfærðir og hafin verður vinna við LED væðingu götulýsingar í öllu sveitarfélaginu. Samkvæmt áætlun verður vinna við endurnýjun hafin á Hauganesi og Árskógssandi, en verkefnið skiptist á 4 ár.                                                                                                                              

Vinna við Umhverfisstefnu Dalvíkurbyggðar er í burðarliðnum og í tengslum við endurskoðun á aðalskipulagi verður blásið til sóknar í umhverfismálum, það er af mörgu að taka og möguleikarnir miklir. Blásið verður til sóknar í hirðingu á þeim reitum sem eru í umsjá Dalvíkurbyggðar og vonast er til þess að ríkið komi að þessu eins og boðað hefur verið. Meðal annars erum við að ræða um Bögg, Brúarhvammsreit og Hánefsstaðareit. Einnig hefur verið óskað eftir svæðum fyrir skógrækt í tengslum við kolefnisjöfnun sem er afar spennandi verkefni sem verið er að vinna að.

Dalvíkurbyggð hefur státað að snyrtilegu umhverfi og það er ekki síst ykkur að þakka kæru íbúar. Við munum leggja mikla áherslu á að fegra opin svæði sveitarfélagsins og hvetjum íbúa til að gera gott betra. Í tengslum við götusópun að vori hvetjum við íbúa til að fylgjast vel með og þrífa bílaplön áður en viðkomandi götur eru sópaðar. Það er fátt leiðinlegra en að sjá sand frá bílastæðum framan við húsin þegar gata er nýsópuð.

Fiskidagurinn mikli verður 20 ára í ár.  Á hverju ári hefur verið hvatt til þess að allir hafi verulega fínt hjá sér, en það hefur gengið frábærlega og nú þegar hátíðin okkar á afmæli væri gaman að gera enn betur. „ Allt í lag fyrir Fiskidag“

Við hjá Umhverfis- og tæknisviði skorum á sviðsstjóra Veitu- og hafnasviðs, Þorstein Björnsson, að koma með næstu grein!

Megi tímarnir framundan vera ykkur góðir og það er með núverandi verkefni eins og önnur, við gerum vel þegar við gerum það saman.

Gleðilega páska!

Fyrir hönd Umhverfis- og tæknisviðs
Börkur Þór Ottósson