Vertu gestur í heimabyggð á eyfirskum safndegi

Vertu gestur í heimabyggð á eyfirskum safndegi
Söfnin í Eyjafirði opna dyr sínar fyrir gestum og gangandi laugardaginn 3. maí. Tilefnið er eyfirski safnadagurinn en markmiðið með deginum er að vekja athygli á þeirri fjölbreyttu og áhugaverðu safnaflóru sem Eyjafjörður hefur upp á að bjóða. Söfnin munu þennan dag kynna starfsemi sína og að þessu sinni verður áherslan á innra starf safna.

Af því tilefni gefst gestum Minjasafnsins á Akureyri kostur á því að láta greina gersemar úr fórum sínum og á Byggðasafninu Hvoli á Dalvík verður hægt að fylgjast með hvernig safnmunir eru skráðir. Í Gamla bænum Laufási verður kynning og sýnikennsla á torfhleðslu en torfbær krefst mikils viðhalds og þá gildir að hafa handverkið í lagi. Á Síldarminjasafni Íslands á Siglufirði verða bátasmiðir að vinna að safnkostinum í Bátahúsinu, viðtalasafn við iðnverkafólk verður kynnt á Iðnaðarsafninu og á Safnasafninu verður safnastefna þess kynnt. Auk þess bjóða söfnin uppá margt annað áhugavert þar má til dæmis nefna listflug, upplestur, leiðsögn, tónlist og kvikmyndasýningu.

Fjölbreytt safnaflóra
Eftirfarandi söfn verða opin frá 11-17 og aðgangur er ókeypis: Amtsbókasafnið, Davíðshús, Flugsafn Íslands, Iðnaðarsafnið á Akureyri, Listasafnið á Akureyri, Minjasafnið á Akureyri, Nonnahús, Sigurhæðir, Byggðasafnið Hvoll á Dalvík, Gamli bærinn Laufás, Holt - hús Öldu Halldórsdóttur í Hrísey, Hús hákarla-Jörundar í Hrísey, Náttúrugripasafn Ólafsfjarðar, Safnasafnið, Síldarminjasafn Íslands á Siglufirði, Smámunasafn Sverris Hermannssonar og Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar á Siglufirði.

Safnarútur - skildu bílinn eftir heima !
Safnarúta 1: Frá Upplýsingamiðstöð ferðamanna, Hafnarstræti 82, kl. 10

Fer á Smámunasafn Sverris Hermannssonar, Safnasafnið og Gamla bæinn Laufás. Leiðsögumaður með í för. Heimkoma kl 15.

Safnarúta 2: Frá Upplýsingamiðstöð ferðamanna, Hafnarstræti 82, kl. 10

Fer á Byggðasafnið Hvol á Dalvík, Náttúrugripasafnið í Ólafsfirði, Þjóðlagasetrið á Siglufirði og Síldarminjasafn Íslands á Siglufirði. Leiðsögumaður með í för. Heimkoma kl 17

Hríseyjarferð: Farið með safnarútu 2 út á Árskógssand - siglt til Hríseyjar, leiðsögn í Húsi hákarla-Jörundar og Ölduhúsi - siglt með ferju með leiðsögn til Dalvíkur og farið á Byggðasafnið Hvol.

Lágmarks fjöldi farþega í safnarúturnar er 10 manns.

Safnastrætó : Frá Nætursölunni kl. 13, 14, 15 og 16 á milli safnanna á Akureyri.

Þennan dag munu söfnin einnig gefa út sameiginlegan kynningarbækling um söfnin í Eyjafirði.

Verkefnið er afrakstur samstarfs safnafólks í Eyjafirði styrkt af Akureyrarstofu, Menningarráði Eyþings, Sérleyfisbílum Akureyrar og leiðsögumönnum á Norðurlandi