Útboð og framkvæmd skólamáltíða fyrir Dalvíkurbyggð

Nú er nýafstaðið útboð vegna skólamáltíða við grunnskóla Dalvíkurbyggðar og leikskólann Leikbæ. Ýmislegt hefur verið skrifa um þetta mál og í síðasta tölublaði Bæjarpóstsins 18. ágúst sl. birtist til dæmis greinarkorn eftir Kolbrúnu Reynisdóttur um útboðið. Þar er farið yfir ýmis atriði sem greinarhöfundur telur ábótavant við umrætt útboð skólamáltíða. Það því tilgangur þessarar greinar að leiðrétta þann misskilning sem þar kemur fram og jafnframt að veita upplýsingar til íbúa sveitarfélagsins um útboðið og framkvæmdina á því.

Lög um útboð kveða á um að þegar væntanleg samningsupphæð á útboðsverki nær ákveðinni krónutölu þá verður að auglýsa það á landsvísu og var það gert í þessu tilviki. Þetta útboð var auglýst í Morgunblaðinu sunnudaginn 10. júlí. Þar kom fram að verðandi bjóðendur gætu nálgast útboðsgögn bæði hér á Dalvík svo og á skrifstofu ráðgjafa okkar við gerð umræddra útboðsgagna, en hún er í Kópavogi. Tilboðin yrðu síðan opnuð á Bæjarskrifstofu Dalvíkurbyggðar þriðjudaginn 19. júlí. Rétt þykir í þessu sambandi að það komi fram að haft var samband við alla þá aðila, sem við og ráðgjafi okkar töldum að hefðu áhuga á þessu útboði, þar á meðal eiganda að Kaffihúsinu Sogni hér á Dalvík.

Það er á ábyrgð Dalvíkurbyggðar að tryggja að þær skólamáltíðir sem boðið er uppá í skólum byggðarlagsins uppfylli þær kröfur sem settar eru fram í þeim lögum og reglugerðum sem gilda um skólamáltíðir og fram koma í manneldismarkmiðum Lýðheilsustofnunar. Þau lög sem stuðst er við eru Lög um matvæli frá 1995 nr. 93 28. júní og Reglugerð um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla, nr. 522/1994 með síðari breytingum, að auki má benda á Handbók um skólamötuneyti sem gefinn var út árið 2003 af Lýðheilsustofnun.

Þessar kröfur, sem greinarhöfundur telur að hafði fælt heimaaðila frá því að gera tilboð eru svipaðar og þær sem aðilum í greiðasölu ber að uppfylla, munurinn er útreikningur á næringarinnihaldi þess matar sem í boði er. Hvað varðar kröfur um útreikning á næringarinnihaldi  er rétt að vísa til áður getinna laga og reglugerða. Við höfum þá trú að þeir foreldrar sem eiga börn í skóla hér í Dalvíkurbyggð verði ánægðir með það að fá vitneskju um næringarinnihald þeirra máltíða sem verða í boði hverju sinni. Til að draga þetta saman í eina setningu þá getur Dalvíkurbyggð ekki gefið heimaaðilum einhvern "afslátt" frá umræddum lögum og reglugerðum sem verkefni sem þetta tekur til.

Í útboðsgögnum var bjóðendum, sem ekki hefðu eldhúsaðstöðu, gefinn kostur á að leigja eldhúsið sem er til staðar í Árskógarskóla. Það að bjóða uppá þá aðstöðu sem að framan greinir hefði átt að tryggja það enn frekar að heimaaðilar mundu líta á það sem spennandi kost að skila inn tilboði því hér var verksamningur á borðinu sem gat numið allt að 60 til 80 milljónum króna á þeim samningstíma sem útboðsgögn tóku til. Samningstími getur numið allt að fimm árum. 

Aðeins eitt tilboð barst og var það frá Sláturfélagi Suðurlands sem reyndar var frávikstilboð, það voru okkur vonbrigði að áhugi fyrir þessu útboði skildi ekki vera meiri en þetta hjá fyrirtækjum hér á Norðurlandi.

Frávikstilboð SS gerði ráð fyrir því að fyrirtækið mundi afhenda skólamatinn til skólanna sem síðan mundu sjá um geymslu, upphitun, skömmtun, uppvask og þrif, skráningu nemenda í mat svo og að lokum um innheimtu fyrir máltíðirnar. Ástæða fyrir fráviksboðið SS var, að þeirra sögn, að þeim hafði ekki tekist að fá samstarfsaðila hér á Dalvík til að sjá um áðurgreinda þætti sem útboðsgögnin tóku til. Það má einnig geta þess að það var mat fulltrúa Dalvíkurbyggðar og SS að um væri að ræða eitt til tvö stöðugildi sem vantaði kostnað fyrir í umrætt frávikstilboð til að uppfylla ákvæði útboðsins.

Frávikstilboð SS var faglega unnið og bar með sér mikinn metnað fyrirtækisins til þess að skila góðri vöru til neytandans. Eftir viðræður við SS náðist samkomulag um að þeir tækju að sér verkefnið eins og það hafði verið sett fram í útboðsgögnum. Frávikstilboðið var 317,- kr/skammt en endanlegt verð eftir samningaviðræður 395,- kr/skammt. Það er ekki lagður virðisaukaskattur á skólamáltíðir svo þetta er endanlegt samningsverð.

Það hefur verið samningur, sem reyndar rann út á vordögum, við Kaffihúsið Sogn um skólamáltíðir sl. þrjú ár, hefði sá samningur verið verðbættur til dagsetningar tilboðs SS þá væri það samningsverð 389,- kr/skammt. Það er því augljóst að þessi nýi samningur er hagstæður fyrir Dalvíkurbyggð því hann tekur til fleiri þátta sem verktakinn tekur að sér eins og áður hefur komið fram.

Frá því að fyrst var byrjað með skólamáltíðir í Dalvíkurskóla, fyrir þremur árum, hefur það verið markmið bæjarstjórnar að nemendur greiði sama verð fyrir skólamáltíðir hvar sem í skóla þeir eru. Það gjald sem innheimt hefur verið fyrir skólamáltíð í Dalvíkurskóla hefur haldist óbreytt síðastliðin þrjú ár 250,- kr/skammt. Bæjarráð ákvað það á fundi sínum 18. ágúst sl. að verð til nemenda fyrir skólamáltíð verði 260,- kr/skammt og nemur hækkunin á milli ára breytingum á neysluverðsvísitölu.

Sparnaður Dalvíkurbyggðar vegna þessa útboðs gæti numið allt að 4,5 milljónum króna. Kostnaður við matráða í Árskógarskóla og Húsabakkaskóla nam á síðasta ári 6,4 milljónir króna þá á eftir að bæta við kostnaði vegna hráefnis svo og vinnslu þess og aðstöðusköpun. Í heild gæti þessi kostnaður, laun, hráefni og aðstaða numið allt að 9,0 milljónir króna. Niðurgreiðslur bæjarsjóðs eru áætlaðar 4,3 milljónir króna og er mismunurinn því 4,7 milljónir króna sem er, að okkar mati, þokkalegur sparnaður.

Við vonum að þetta leiðrétti eitthvað af þeim rangfærslum sem fram koma í umræddri grein og að íbúar Dalvíkurbyggðar séu með þessum skýringum upplýstari um hvernig staðið var að lausn þessa máls.

Við viljum einnig benda greinarhöfundi og öðrum þeim sem hafa skrifað og tjáð sig um skólamáltíðir fyrir börn í Dalvíkurbyggð á að oft er betra að leita sér upplýsinga um staðreyndir málsins áður en ráðist er fram á ritvöllinn.

Þorsteinn Björnsson  veitustjóri

Óskar Þór Sigurbjörnsson skólamálafulltrúi