Umhverfisstjóri Dalvíkurbyggðar Valur Þór Hilmarsson

Um áramótin síðustu tók umhverfisstjóri Dalvíkurbyggðar formlega til starfa. Starfið er nýtt hjá sveitarfélaginu en áður var til staða garðyrkjustjóra. Starf umhverfisstjóra var auglýst haustið 2013 en alls sóttu 25 aðilar um starfið. Valur Þór Hilmarsson, garðyrkjufræðingur, var talinn hæfastur umsækjenda af ráðningarskrifstofunni Capacent og var ráðinn til starfsins.


Umhverfisstjóri hefur yfirumsjón með umhverfismálum sveitarfélagsins auk þess að hafa umsjón og eftirlit með; sorphirðu, snjómokstri og hálkueyðingu, hunda- og katthaldi og efnisnámum í sveitarfélaginu. Þá hefur starfsemi vinnuskóla verið færð undir íþrótta- og æskulýðsfulltrúa en áfram starfar vinnuhópur eldri ungmenna með umhverfisstjóra. Ýmis önnur verkefni falla undir umhverfisstjóra svo sem; skipulagnin og umsýsla leiksvæða, bæði við skóla og á opnum svæðum, jólaskreytingar og brenna, kynningarstarf, miðlun þekkingar og Fiskidagurinn mikli. Þá á umhverfisstjóri að hafa frumkvæði að verkefnum sem stuðla að fegrun sveitarfélagsins. Starfið er því yfirgripsmikið og fjölbreytt verkefni sem þar falla undir.


Eins og kom fram hér að ofan var Valur Þór Hilmarsson ráðinn í starfið. Valur er garðyrkjufræðingur að mennt en hann stundaði nám við Garðyrkjuskóla Ríkisins. Áður en hann hóf störf hjá Dalvíkurbyggð vann hann hjá Fjallabyggð sem umhverfisfulltrúi og þar áður sem umhverfisfulltrúi hjá Ferðamálastofu.